28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Skúli Thoroddsen:

Háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) hefir, að vanda, int af hendi skylduverk sitt við kjósendur sína, að hnýta við embættismönnum og minna á sparsemi, enda þótt hann hafi, þegar áður en frv. var borið fram, gengið inn á það með sínum flokki, að samþykkja það. Jeg verð því að skoða ræðu hv. þm. (S. S.) frekar sem talaða fyrir kjósendur, til þess að sjást í þingtíðindunum, heldur en á þá lund, að hann ætli sjer í alvöru að leggjast á móti málinu.

Aðalatriðið hjá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) var það, að rígbinda sig við þá rökstuddu dagskrá, sem kom fram á síðasta þingi, og telur hann það víst, að með orðunum »næsta þing« sje þar meint aðalþing. Það má vel vera, að menn á síðasta þingi hafi ekki haft það í huga, að aukaþing yrði haldið, en meining þeirra auðvitað verið sú, að málið yrði tekið upp aftur við fyrsta tækifæri; og sje hjer um nauðsynjamál að ræða, þá sje jeg ekki ástæðu til að sporna við því, að það nái fram að ganga, og þá á það að ganga fram nú þegar.

Hann taldi að aðalástæðan fyrir því, að frumvarpið væri fram komið, mundi vera aukin störf stjórnarinnar, vegna afleiðinga þeirra, sem Evrópuófriðurinn hefði fyrir landið og jafnframt hið pólitíska ástand hjer á þingi, þar sem enginn flokkur hefði hreinan meirihluta. Að því er fyrra atriðið snertir, þá er það að vísu rjett, að ófriðarafleiðingarnar munu hafa verið orsök til þess, að aukaþing var kvatt saman, og þá leið óbeinlínis stuðlað að því, að hægt er að koma þessu máli fram nú, og það er líka rjett, að störfin hafa aukist mjög einmitt vegna ófriðarins. En þetta hrekur á engan hátt aðrar ástæður, sem fram hafa verið færðar — og það fyrir ófriðinn — fyrir því, að sjálfsagt væri að fjölga ráðherrum. Og fyrst það er óhjákvæmilegt að gjöra þetta yfir þann tíma, sem ófriðurinn stendur — og það kannast hv. þm. við með brtt. sinni — því má þá ekki taka skrefið fult, þar sem líka auðvelt væri að nema lögin úr gildi, ef þau reyndust óþörf. Síðari ástæðan er ekki annað en heilaspuni hv. þm. (G. Sv.), sem hann hefir engin rök fært að, og því óþarft að svara. Enn fremur sagði hv. þm. (G. Sv.), að engin yfirlýsing hefði komið frá stjórninni um, að fjölgunin væri nauðsynleg, en sú yfirlýsing kom einmitt á síðasta þingi í frumvarpi stjórnarinnar um að hafa ráðherra tvo.

Við það, að ráðherrar yrðu þrír, mundi stjórnin fá meiri festu og málameðferð verða betri, þar sem þeir myndu þá valdir með sjerstöku tilliti til þekkingar á þeim málum, er undir hvern ætti að heyra. Þá myndum við líka losna við þann óeðlilega millilið í stjórninni, sem ekki þekkist annarstaðar, landritarann, sem í rauninni er hvorki fugl nje fiskur.

Hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) gat þess rjettilega, hve mál hefðu oftsinnis komið illa undirbúin á þing. Þetta ættu að mínu áliti miklu frekar að vera meðmæli með frv. því, er hjer liggur fyrir, því að sjeu ráðherrar þrír, er það óneitanlega hægara fyrir menn að snúa sjer til þeirra með undirbúning þeirra mála, er þeir bera fyrir brjósti, og stjórnin myndi hafa betra tækifæri til þess, að taka þau til meðferðar og undirbúa þau, og þá mundum við losna við þá galla og þann rugling, sem sífeldar lagabreytingar gjöra í stjórnarfari hvaða þjóðar sem er.

Annars álít jeg að umræður um þetta mál hafi orðið full-langar, eftir því sem málið liggur fyrir, en fyrst asninn var nú einu sinni leiddur í herbúðirnar af hv. 1. þm. Árn. (S. S) og »repræsentant Oppositionarinnar« hjer á þingi, háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv), þá fann jeg mjer skylt, sem einum af flutningsmönnum frv., að gjöra þessar athugasemdir.