28.12.1916
Neðri deild: 7. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 64 í B-deild Alþingistíðinda. (104)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) heldur því fram, að fyrirkomulag það, sem frv. hefir að flytja, þurfi ekki nema skamman tíma. Jeg veit ekki til þess, að hann sje þessu máli kunnugri en jeg, þar sem hann hefir eigi setið á þingi fyrr en nú. Jeg sje eigi betur en flestir hafi nú fallist á, að stjórnarstörfin sjeu einum manni ofviða, og fyrirkomulag þetta eigi því að sjálfsögðu að vera til frambúðar. Hygg jeg að allir hafi þessa skoðun undir niðri. Margir hafa þegar látið hana í ljós, og nú síðast hæstv. ráðh. (E. A.), sem málinu er kunnugri en flestir aðrir. Eins og bent hefir verið á, munu störf stjórnarinnar eftir ófriðinn halda áfram að vera einum manni ofvaxin. Get jeg því ekki fallist á brtt. á þgskj. 28, þar eð hún fer í bág við þessa almennu skoðun.

Enn vil jeg minna á eitt. Menn ætla stjórnarráðinu að hafa frumkvæði til löggjafarinnar. Jeg hafði t. d. búist við, að hæstv. núverandi ráðh. (E. A.) myndi taka hegningarlöggjöfina til meðferðar, en jeg lái honum eigi, þótt hann hafi ekki gjört það; honum hefir alls eigi unnist tími til þess.

Hvað snertir háttv. 1. þm. Árn. (S. S.). hefi jeg fátt að segja annað en jeg hefi áður sagt. Mjer finst tilgangslítið af honum, að eyða svo mörgum orðum móti frv., úr því að hann var búinn að ganga inn á fyrirkomulagið. (Sigurður Sigurðsson: Hve nær hefi jeg gjört það?) Um það vil jeg ekki þrátta nú, en framkomu hans fæ jeg ekki skilið. Jeg vil eigi kasta honum hinu sama í nasir og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) gjörði, þótt sú tilgáta sje eigi ósennileg. Vona jeg nú, að umræða þessi fari að styttast og frv. verði samþykt til 2. umr.