28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Jeg bið háttv. flutnm. brtt. (þgskj. 28) (M. P.) afsökunar á því, að mjer hefir missýnst. Sýndist standa 1917 í staðinn fyrir 1919. En það breytir ekki afstöðu minni. Jeg er alveg á móti henni eftir sem áður. Tel jeg víst, að stríðið standi til þess tíma, eða að minsta kosti afleiðingar þess. En hvað sem því líður, er það mín hyggja að fyrirkomulag þetta eigi að vera til frambúðar, en ekki til bráðabirgða.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) efaði það, að stofna þyrfti landritaraembættið aftur, ef breytt yrði aftur í sama horfið og ráðherra ekki hafður nema einn. Honum ætti þó að vera kunnugt um, að landritari gegnir ráðherrastörfum í forföllum og fjarveru ráðherra og mundi því landið geta orðið stjórnlaust um tíma, ef embætti hans væri afnumið og ekki nema einn ráðherra. Auk þess er það landritari, sem ef til vill best þekkir til í stjórnarráðinu.

Hitt var rjett, að fleiri eru en þrír þættir í þjóðmálum vorum, en því færri menn, sem með þá fara, því meiri hættan að illa fari. Jeg vildi óska, að sá tími kæmi, að eins mikil þörf yrði á að

ráðherrum yrði fjölgað aftur, eins og nú er á að fjölga þeim frá einum upp í þrjá. Það væri greinileg sönnun þess, að framfarir þjóðarinnar væri orðnar svo miklar og margbreytilegar, að jafnvel 3 ráðherrar gætu eigi annað stjórnarstörfunum.

Jeg man þá tíð, að vel mátti við una að hafa að eins einn landshöfðingja, en hamingjunni sje lof að nú dugir ekki slíkt lengur.