28.12.1916
Neðri deild: 8. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 85 í B-deild Alþingistíðinda. (122)

19. mál, æðsta umboðsstjórn landsins

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Jeg ætla að eins að gjöra örlitla athugasemd við eitt atriði, sem komið hefir fram í umræðum þessum.

Mjer virðist vera gefið í skyn af hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), að ef ráðherrum yrði fækkað aftur, þá mundi ekki nauðsynlegt, að landritaraembættið yrði stofnað aftur.

Jeg get þó ekki annað sjeð en það leiði beint af 1. gr. stjórnarskipunarlaganna 1915, að það embætti hljóti að verða stofnað aftur. Jeg tel það því sjálfgefið, að embætti þetta yrði stofnað aftur, ef ráðherrum yrði fækkað. Að öðrum kosti væri stjórnskipunarlögunum ekki hlýtt Þetta er að vísu formlegt atriði, en það er þó gefinn hlutur, að einhver maður þarf að vera við hendina, til þess að gegna störfum ráðherra í fjarveru og forföllum hans. Jeg skal ekki segja um, hvort stjórnarskrárbreytingu þyrfti til þess, að stofna landritaraembættið aftur; býst þó fremur við, að þess þyrfti ekki.