06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (158)

27. mál, strandferðaskip

Framsm. (Þorsteinn Jónsson):

Jeg skal taka það fram, að áætlun sú, er frv. fylgir, var prentuð áður en sumir nefndarmenn vissu af, og gátu því ekki allir gjört sínar athugasemdir við hana áður. En þetta var af ástæðum, sem við vöruðum okkur ekki á. í gær tók nefndin til nánari athugunar áætlun þessa, og þá um leið umkvartanir, sem komið hafa fram um hana. Man jeg þó ekki, að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) hafi sent neinar umkvartanir. Annars skil jeg, að það, sem hann sagði um Súgandafjörð, sje á rökum bygt. Og geng jeg út frá því, að stjórnin taki hann með á áætlunina, ef sýnt er fram á, að þess sje þörf, sem jeg efast ekki um. Það voru líka þessu lík atriði, sem nefndin var ásátt um í gær, að breyta þyrfti í áætluninni.

Þótti henni rjett að taka Hornafjörð með í 6. og 8. ferð, sömuleiðis Tálknafjörð í 1. og 6. ferð. Enn fremur taldi hún rjett, að skipið kæmi til Hafnarfjarðar, þegar sagt væri til fólks og flutnings þaðan eða þangað, en hefði þar ekki fastákveðinn viðkomustað. Sömuleiðis að það komi við í Vík, þegar þar byðist 100 kr. »fragt« eða meira.

Þá gjörði nefndin enn þá breyting, að í stað orðsins »Stokkseyri« í athugasemdum komi Stokkseyri eða Eyrarbakki. Þessar breytingar hefir nefndin orðið sammála um, og mun standa við þær. Vona jeg að háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) fái því til vegar komið, að stjórnin bæti Súgandafirði inn í, og skal jeg játa það, að honum var slept af athugaleysi okkar, og vona jeg að háttv. þm. afsaki það.