06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

27. mál, strandferðaskip

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi að eins, fyrir hönd þeirra manna, sem við Gilsfjörð búa, spyrja háttv. nefnd að því, hvort rjett sje að setja þá hjá, fremur en Hvammsfirðinga. En ef mjer hefir sýnst rjett, þá er engin ferð áætluð þangað. Liggja þó að Gilsfirði hjeruð allstór, nokkur hluti Dalasýslu og Barðastrandasýslu. Eru það sveitir góðar og allfjölmennar. Vil jeg þar til nefna Saurbæjarhrepp, Skarðströnd, Geiradal, Bæjarhrepp og Reykhólasveit.

Helstu hafnir eru Salthólmavík og Króksfjörður. Er mjer kunnugt um, að frá og til staða þessara er mikið að flytja, og þykir mjer því ranglátt, ef slept er ferðum þangað. Einkum er það vor og haust, og getur Breiðafjarðarbáturinn ekki annað þeim flutningi; auk þess er það dýrara að láta hann flytja.

Ef þetta hefir verið skakt á litið hjá mjer, þá tel jeg þetta ofmælt, en sje svo ekki, þá skora jeg á nefndina, að taka orð þessi til athugunar.