06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

27. mál, strandferðaskip

Magnús Pjetursson:

Hv. Framsögumaður (Þorst. J.) hefir þegar tekið fram nokkuð af því, sem jeg vildi segja, en þó vil jeg bæta því við um áætlunina, að jeg, sem nefndarmaður, vildi mælast til þess, að þeir háttv. þm., sem þykjast hafa orðið útundan hjá nefndinni, komi á fund hjá henni, og beri þar fram athugasemdir sínar og umkvartanir. Jeg tel rjettast, að þeir tali við nefndina, og gjöri ráð fyrir, að hún sje fús til að verða við öllum sanngjörnum tilmælum. Það hlýtur að vera öllum ljóst, að ómögulegt er, að eitt skip geti komið alstaðar, nema þá með því móti, að fækka ferðunum. Það er alt annað, að búa til áætlun fyrir 1 skip, sem á að fara hringinn í kring um landið, eða 2, sem fara sinn hálfhringinn hvort. Og enginn getur búist við því, að ferðir með einu skipi verði jafnfullkomnar og með tveimur. Þess verða menn að gæta.

Um Breiðafjarðarbátinn og Gilsfjörð, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) og háttv. þm. Barð. (H. K.) töluðu um, skal þess getið, að samkvæmt því fullkomna fyrirkomulagi, sem gjört var ráð fyrir á síðasta þingi, áttu strandferðaskipin 2 að koma sína ferðina á hvorn, Hvammsfjörð og Gilsfjörð, haust og vor. Þá var og hækkaður styrkur til Breiðafjarðarbátsins, með það fyrir augum, að hann tæki ómakið af strandferðaskipunum, svo að þau þyrftu ekki að koma eins oft á þessa firði. Um þessa tvo staði er það að segja, að þeir tefji mjög ferðir skipa, þar eð það verður að sæta sjávarföllum, minsta kosti í annan. Yfirleitt fanst nefndinni ekki fært að taka báða staðina, og vildi þá heldur sleppa Gilsfirði, með því að meira er flutningsmagn Hvammsfjarðar að öllum jafnaði. Ef sú yrði raunin á, að þetta skip yrði látið koma haust og vor bæði á Hvammsfjörð og Gilsfjörð, væri verið að gjöra ráð fyrir jafn fullkomnu fyrirkomulagi og 1915.

En það er öllum skiljanlegt, að enginn höfn á landinu getur búist við jafn miklum ferðum, og því ætti þá sjerstaklega að taka þessa staði fram yfir, sem mest mundu tefja hið stóra og dýra skip?

En nú er að eins verið að bæta úr allra brýnustu nauðsyn. Jeg vil ekki í neinu spilla fyrir þeim mönnum, sem búa á þessum stöðum, en jeg álít, að þeir muni komast af með ferðir þær, sem þessi bátur, Breiðafjarðarbáturinn, getur í tje látið. Hygg jeg, að þeir yrðu með því ekki ver úti, en margir aðrir umhverfis landið.