06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 107 í B-deild Alþingistíðinda. (168)

27. mál, strandferðaskip

Björn Stefánsson:

Með því að jeg hefi átt mestan þátt í að búa til áætlun þá, sem hjer liggur fyrir, — en hún hefir fengið mjög ómilda dóma, — tel jeg rjett að gjöra grein fyrir því, sem fyrir mjer vakti, er jeg bjó til uppkastið að henni. Jeg hafði þá fyrir mjer áætlun Ísafoldar frá 1914. Eftir því, sem mjer er kunnast, var Ísafold ætlað að koma sem allra víðast við, eða á öllum þeim höfnum, sem fært þótti. Nú er ætlast til, að skip það, sem á að kaupa til strandferðanna, verði allmikið stærra en Ísafold var. Þess vegna þótti mjer ekki tiltækilegt í uppkasti mínu, að taka upp viðkomustaði fyrir það, sem ógjörningur þótti að láta Ísafold sigla á. Þess vegna slepti jeg t. d. Eyrarbakka, en ekki fyrir það, að mjer væri ókunnugt um, að þar væri allfólksmargt og allmikill verslunarstaður. Auk þess bjóst jeg við því, sem nú er fram komið, að háttv. þm. þeirra kjördæma, sem kynnu að verða hart úti, mundu gjöra sjer meira far um að fá fjölgað viðkomum og viðkomustöðum í sínum kjördæmum, en um það að benda á, þótt einhver áætluð viðkoma mætti að bagalitlu falla niður.

Mjer fanst hv. framsm. (Þorst. J.) bera af nefndinni í heild sinni, hvernig áætlunin er gjörð. Sannleikurinn er sá, að þegar jeg hafði gjört uppkastið, lagði jeg það fyrir nefndina og tók til greina breytingar þær, er hún vildi gjöra, áður en áætlunin fór í prentsmiðjuna. Vona jeg, að háttv. þm. þeir, er töluðu við mig, meðan á samningi uppkastsins stóð, viðurkenni, að jeg hafi enga ósanngirni sýnt þeim, og jafnframt að nefndin viðurkenni, að jeg hafi gjört á henni þær breytingar, sem samkomulag varð um að gjörðar væru. Jeg vildi bæta því við, að það mun ekki rjett, sem háttv. þm. Barð. (H. K.) hafði eftir framsm. (Þorst. J.), að nefndin hefði lofað að láta skipið koma við á Tálknafjörð í 5. ferð, heldur mun það hafa verið í 6. eða 7. ferðinni.