06.01.1917
Neðri deild: 16. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í B-deild Alþingistíðinda. (169)

27. mál, strandferðaskip

Þórarinn Jónsson:

Þar sem athugasemdir og umkvartanir þær, sem fram hafa komið viðvíkjandi áætluninni, hafa ekki verið lagðar fyrir nefndina til úrslita, þá vil jeg lýsa yfir því, að nefndin mun taka þetta alt til athugunar og boða þá háttv. deildarmenn á fund sinn, sem umkvartanir hafa gjört, svo að ástæður allar verði metnar. Finst mjer óheppilegt að eyða tíma til að þjarka um þetta í háttv. deild, og þar ekki heppilegur staður til þess. Óska jeg því, að umræður verði ekki lengri, og gjöri svo ráð fyrir, að nefndin skeri úr deiluatriðunum, að viðstöddum þeim, er breytinga óska.

Til skýringar viðvíkjandi Tálknafirði skal það tekið fram, að nefndin samþykti, að framsögumaður skyldi lýsa yfir því, að í 2 ferðum skyldi höfð þar viðstaða. Nefndin taldi 1. og 5. ferð heppilegastar. Geng jeg þó út frá því, að nefndin sje fús til að taka 6. ferð fyrir 5. Jeg fyrir mitt leyti sje ekkert á móti því.