02.01.1917
Neðri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í B-deild Alþingistíðinda. (181)

21. mál, ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum

Flutnm. (Magnús Guðmundsson):

Þetta frv. er að mestu endurtekning á lögum nr. 7, 21. ágúst 1915, en þau falla úr gildi í lok þessa þings. Þó eru nokkrar breytingar, sem stungið er upp á. En af því þetta er 1. umr., þá skal jeg ekki tala um þær nú, heldur geyma það til 2. umr.

Jeg skal geta þess, þótt ekki sje það tekið fram í frv., þá er þetta frv. í raun og veru komið frá nefndinni, sem kosin var til að íhuga bretsku samningana, og vildi jeg því helst kjósa, að þetta mál gæti farið nefndarlaust gegnum þingið. Breytingarnar, sem jeg mintist á, eru aðallega þær, að gefa stjórninni meira vald til ráðstafana en áður hefir verið, og verðum við að álíta það nauðsynlegt, eins og nú er háttað. Ein breytingin er t. d. sú, að nú er lánsheimild til vörukaupa ekki takmörkuð við eina miljón króna, eins og áður hefir verið.