04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

21. mál, ráðstafanir út af Norðurálfuófriðnum

Flutnm. (Magnús Guðmundsson):

Eins og tekið var fram við 1. umr., þá er frv. þetta að miklu leyti sniðið eftir lögum nr. 7, 21. ág. 1915, en þó eru nokkrar breytingar áorðnar.

Í fyrsta lagi það, að ekki sje skipuð nein nefnd til ráðuneytis stjórnarráðinu. Þykir það óþarfi nú, þar sem ráðherrum hefir verið fjölgað.

Í öðru lagi ákvæði það, sem stendur í 4. lið 2. gr., að landstjórninni sje heimilað að taka í sínar hendur alla verslun með útlendar vörutegundir, fleiri eða færri, ef þörf gjörist. Þetta ákvæði var sett í frv., af því að líkur eru til, að landsstjórnin verði að taka að sjer alla verslun á sykri, og getur svo farið um fleiri vörur. Fengum við vitneskju um, að dómsmálaráðuneytið í Danmörku mundi vilja útvega sykur hingað með því skilyrði, að landsstjórnin hefði í höndum verslunina.

Í þriðja lagi þótti það nauðsynlegt ákvæði, að lánsheimild stjórnarinnar væri ekki bundin við eina miljón kr., heldur eins og þörf gjörist. Það er sýnilegt, að ef stjórnin verður að annast kaup á miklum nauðsynjavörum, þá er 1 miljón of lág lánsheimild. Enda er það ekki meira, þótt stjórninni sje trúað fyrir að taka lán en annað, sem henni er falið nú á tímum. Þá er það nýtt ákvæði, sem stendur í 2. gr. frv., að stjórnin skuli hlutast til um, að vörurnar komi að sem jöfnustum notum öllum landsbúum, og þó sjerstaklega þeim er þörfina hafa mesta. Og auk þess það, að veita megi ívílnun á kostnaði við að senda vöruna milli hafna á landinu.

Um frv. í heild sinni má segja það, að þótt hjer sje að eins um heimildarlög að ræða, þá vakir þó fyrir flutningsmönnum, að stjórnin sje, ef nauðsyn krefur, skyld til að gjöra þær ráðstafanir, er frv. gjörir ráð fyrir.

Með tilliti til þessa skilnings á lögum þessum, verður tekin aftur þingsályktunartillaga sú, er kom fram á þgskj. 19, og sömuleiðis gjöri jeg ráð fyrir að niður falli brtt. á þgskj. 32 og 40.