12.01.1917
Neðri deild: 24. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (203)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Jeg stend ekki upp sem flutnm. frv., þótt jeg sje talinn svo.

Jeg verð að álíta, að þar sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) bæði samdi og skrifaði frv., þá beri að telja hann fyrsta flutningsmann þess. En þetta skiftir ekki miklu máli.

Annars nenni jeg ekki að elta ólar við háttv. þm. (E. A.) um efni, sem eigi skiftir meira máli en þetta atriði. Hann fer að minsta kosti á hlið við sannleikann, svo sem vandi er prókúratora, þeirra, er eigi þykja fínustu tegundar.

Hvert einasta orð af því, er jeg hefi sagt um þetta efni, er sannleikur. En eins og þegar er sagt skiftir þetta engu máli.

Hann má, óátalið af mjer, hafa gagnstæða aðferð þeirri, er jeg hefi haft, að kannast, við að mjer hafi skjátlast, og reyna að bæta úr því.

Háttv. þm. Borgfirðinga (P. O.) taldi mjög misráðið, að þilskipin voru seld um árið til Færeyinga. Veit hann þá eigi að síðustu árin, áður en þau voru seld, hafði einatt tapast á útgjörðinni; skipin voru allflest orðin svo ljeleg, að við borð lá, að menn fengi ekki að gjöra þau út, og aðgjörðir hjer svo afskaplega dýrar, að ekkert útlit var fyrir, að það gæti borgað sig. Það verður þvert á móti að telja happ, að svo fór sem fór. Þeir, sem áttu skipin og ekki skulduðu alt, sem þeir fengu fyrir þau, munu hafa lagt það fje, sem þeir fengu fyrir skipin í botnvörpuskip, og hafa eigi haft ástæðu til að iðrast þess.

Háttv. 2 þm. Árn. (E. A.) vildi halda því fram, að þetta gjörðu aðrar þjóðir. Það er rjett, en þess ber að gæta, að þar eru kauphallir, þar sem skipin geta gengið kaupum og sölum. Hann hefir ekki komið með þá brtt., að landssjóður kaupi þá skipin, ef menn vilja selja. Það hefði verið annað mál. En þetta, sem hjer liggur fyrir, er sama sem að taka eignir manna og gjöra þær ónýtar. Menn mega þá ekki losna við skipin, þótt þeir t. d. geti ekki haldið þeim úti sakir skorts á kolum eða öðrum nauðsynjavörum. Hjer eru að vísu menn, sem vilja kaupa, en engin sönnun er fyrir því, að þeir sitji fyrir kaupum á skipum, sem menn hjer kynnu að vilja selja, af því að hjer er engin kauphöll og menn vita því eigi um, hvort skip eru föl eða eigi. Útgjörðarmenn hjer hafa enga tilhneigingu til að selja í gróðaskyni, heldur til að fá ný í staðinn. Það er ekki nema von, að menn vilja losa sig við úrelta skrokka og fá í staðinn bestu skip, og nota sjer til þess þarfir manna í öðrum löndum. Jeg held, að með lögum þessum sje gjörð tilraun til að spilla fyrir því, að menn getið fengið sjer ný skip. Hv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um undanþágur. Það er ekki sagt, að allar stjórnir vildu veita slíkar undanþágur. Fjelag gæti staðið tæpt og viljað ná sjer í fje með því að selja. En það er ekki hægt hjer, vegna þess að kauphallir vantar.

Því er ómögulegt að bera það saman, þótt aðrar þjóðir leggi á útflutningsbann. Jeg hefi alt af búist við, að þessi stjórn gjörði sem mest til að bæta úr þessum nauðungarlögum. En önnur stjórn getur komið, sem tregari yrði til að veita undanþágu. Þess vegna er mjer ekki fullnægt með brtt. þeirri, sem háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) talaði um.