12.01.1917
Neðri deild: 24. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 132 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

47. mál, bann við sölu og leigu skipa úr landi

Flutnm. (Matthías Ólafsson):

Það er rjett, að hættulegt gæti orðið, ef of mörg skip væru látin burtu úr landinu. En hafa menn athugað það, hvort þjóðin muni hingað til hafa grætt eða tapað á útflutningi skipa úr landinu? Hingað til hefir hún haft hag af því. Það hafa verið seld eingöngu gömul skip. (Einar Arnórsson: Þetta kemur ekki málinu við). Jú, það kemur því einmitt mikið við. Þetta frv. gæti girt fyrir það, að menn fengju sjer ný skip fyrir gömul. Maður, sem ætlar sjer að kaupa stórt, nýtt flutningaskip, verður að hætta við það, er hann getur ekki selt gömlu skrokkana. En aftur myndu menn að sjálfsögðu selja gömlu skipin, ef þeir hefðu trygt sjer ný. Þetta er hagur. (Gísli Sveinsson: Þetta skil jeg ekki). Það er ekki von að háttv. þm. V. Sk. (G. Sv.) skilji þetta. Auðvitað hefir þingið ráð til þess, að svifta menn slíkum hag. Annars get jeg tekið það fram, að væri jeg stjórnin, myndi jeg eftir orðum manna hjer í dag, telja heimilt að gefa alt af undanþágu. Þjóðfjelagið græðir mest á því, að borgarar þess sjeu frjálsir að því, að selja skip sín, hvert sem þeim sýnist. því að þegar borgararnir græða, græðir þjóðfjelagið. Þetta virðist að eins vera þrái hjá mönnum. Þeir hafa fallist á, að undanþágur eigi að veita, en vilja fá lög um útflutningsbann, eins og aðrir. Þetta er því bara eftiröpun og annað ekki.