11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (215)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg þarf eigi að bæta miklu við það, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls. Þó vil jeg geta þess, viðvíkjandi upplýsingunum um þörfina á þessu skipi og því, að vjer mundum hafa betri flutningatæki á fastri áætlun þetta ár en síðastliðið ár, þá vil jeg taka það fram um aukaskipin, sem jeg nefndi við 1. umr., að á síðastliðnu ári hafa komið 5 aukaskip frá Sameinaða fjelaginu með ýmsar vörur, auk þeirra, sem fært hafa einstökum mönnum farma af kolum og olíu. Ekkert getum vjer treyst upp á slíkar ferðir.

Viðvíkjandi 1. gr. skal jeg taka það fram, að stærðin er miðuð við það, að skipið verði nógu stórt til Ameríkuferða. Það mun ekki borga sig, að senda þangað minni skip. Það er auðvitað ekki hægt að segja, hvað skipið muni kosta, en eftir upplýsingum, sem nefndin hefir aflað sjer, er hæsta verð 1000 kr. fyrir smálestina. Enn fremur vil jeg geta þess, þótt það standi í fylgiskjali frá Eimskipafjelagsstjórninni, að hún hefir tjáð sig fúsa til, að taka að sjer rekstur þessa skips, eins og strandferðaskipsins.

Ein brtt. hefir komið fram á þgskj. 123. Flutnm. hennar (B. J.) gerði að nokkru grein fyrir henni við 1. umr. Nefndin lítur ekki óvingjarnlega á hana. Úr því hún er fram komin, er ef til vill varhugavert að fella hana, því það myndi þá skilið svo, að stjórninni beint væri bannað að kaupa fleiri en eitt skip. Hún telur brtt. við 2. gr. rjetta, að útgjöld til útgjörðar skipsins megi einnig veita á aukafjárlögum.