11.01.1917
Neðri deild: 21. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 144 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Bjarni Jónsson:

Jeg er hv. síðasta ræðumanni (B. St.) þakklátur fyrir hinar góðu undirtektir, sem mín litla breytingatillaga fekk hjá honum. Þótt hún sje lítil, þá veit jeg að hún er mjög þýðingarmikil, því jeg hygg, að það sje til stórþæginda fyrir stjórnina, að hafa heimildina svo rúma, að hún geti keypt meira en eitt skip, ef henni býður svo við að horfa. Jeg spái ekki, að samgöngur heftist milli Íslands og annara landa, t. d. Englands, og óska enn síður að svo verði, en jeg get ómögulega fullyrt, að slíkt komi ekki fyrir, og með það fyrir augum þótti mjer þörf á að láta stjórnina hafa mjög óbundnar hendur til skipakaupa, svo að hún gæti keypt 10 skip, ef þörf krefðist. Því kom jeg með brtt. mína.

Annars vil jeg skjóta því til nefndarinnar, hvort hún vill ekki bæta úr ýmsum misfellum á orðalaginu, er leiðir af tillögu minni, en jeg hefi gleymt að laga um leið, áður en málið kemur til þriðju umræðu, svo framarlega sem forseti og nefndin geta ekki komið sjer saman um að lagfæra þær misfellur án atkvæðagreiðslu.