11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (226)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Bjarni Jónsson:

Mjer þótti undarlegt þetta ávarp frá háttv. þm. S.Þ. (P. J.), og það sjerstaklega, að hann bjóst við, að stjórnin mundi verða svo djarftæk, að hún glataði sjálfstæði landsins. Það var von, að jafn skarpur og einbeittur sjálfstæðiskappi og þjóðmálaskörungur þyrfti að taka þetta fram.

Jeg vona, að stjórnin verði gætin, en býst þó heldur við, að hún verði of rög. Jeg vil minna hana á, að fyrir þjóð eins og Íslendinga, er það sjálfsstæðisvottur að eiga skip, og vil jeg skora á hana, að vera ekki of varfærin, því að það er glötun á sjálfstæði landsins, að draga framkvæmdirnar á langinn, þar til alt er um seinan. Vjer ættum heldur að hvetja stjórnina en draga úr henni, einkum þegar það er sýnt, að engin þörf er erlendra lána eða skuldbindinga. Landsmenn eiga nægilegt fje í sparisjóðum og bönkum, sem vafalaust má fá að láni, eða að öðrum kosti lögskylda menn til að láta af hendi, er þörfkrefur.