11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (227)

40. mál, kaup á eimskipum til vöruflutninga

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Jeg fyrir mitt leyti get vel felt mig við brtt. háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), einkum eftir að hafa heyrt skýrslu hæstv. forsætisráðherra (J. M.) um skilning hans á tilætlun nefndarinnar.

En það er vitanlegt, að fyrir gæti komið, að þetta skip færi milli annarra landa en Ameríku og Íslands, þótt flestar ferðir yrði á því svæði. Hvað viðvíkur erfiðleikum að afla fjárins, þá býst jeg við, að þeir sje nokkrir, en nokkuð kemur mjer það á óvart, ef ekki verður hægt að fá að minsta kosti mikinn hluta þess með lánum í landinu sjálfu. Það hefir verið bent á, að stjórninni væri hjer að eins gefin heimild, heimild, sem hún myndi að eins nota, ef í nauðir ræki. Það er satt, að hjer er að eins um heimild að ræða, en jeg álít, að stjórninni beri alls ekki að bíða eftir brýnni nauðsyn fyrir skip, heldur eigi hún að nota tækifærið, ef það byðist gott til skipakaupa. Sjerstaklega á jeg hjer við kaup á einu skipi.

Þá má heyra ugg og ótta hjá háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) út af því, að sjálfstæði landsins sje stofnað í háska með því, ef lán væri tekið í útlöndum til skipakaupa. Slíkt get jeg naumast skilið. Fyrst og fremst býst jeg við, eins og jeg hefi þegar tekið fram, að lánið fengist að mestu hjer innanlands, og svo sje jeg ekkert óttalegt við að taka fje að láni í útlöndum; jeg sje ekki, að sjálfstæði landsins sje nein hætta af því búin, þvert á móti sýnist mjer hættulegt landi og lýð, ef vjer getum ekki náð til annarra landa sakir skipaskorts. Ef vjer yrðum svo á flæðiskeri staddir, mætti búast við, að vjer yrðum að sæta hörðum kostum í skipakaupum, eða skipa útvegunum, landinu til brýnustu þarfa.