18.12.1916
Neðri deild: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (237)

2. mál, útflutningsgjald af söltuðu sauðakjöti

Framsm. (Pjetur Jónsson):

Þegar hæstv. ráðherra (E. A.) lagði fram frv. þetta, þá ljet hann þess getið, að í rauninni væru ástæður stjórnarinnar, til þess að bera frv. fram, fallnar niður, eða að minsta kosti minni heldur en þegar bráðabirgðalögin voru sett. Svo er sem sje mál með vexti, að af þeim 300 tunnum saltkjöts, sem Bretum voru áskildar, er nú ekki þörf á nema 100 tunnum. Og þegar um svo mikla minkun er að ræða, að verðmunurinn á kjötinu nemur að eins um 4000 kr., þá er það alt of mikil fyrirhöfn, að innheimta toll víðsvegar um land fyrir svo litinn útgjaldalið. Ofan á þetta bætast áskoranir víðs vegar af landinu, um að afnema bráðabirgðalögin. Þess vegna leggur nefndin það til, í samráði við hæstv. ráðherra, að frv. sje felt, og þar með þá feld úr gildi bráðabirgðalögin frá 4. þ. m.; auðvitað verður þá endurgreiddur sá tollur, sem innheimtur kann að hafa verið samkvæmt þessum bráðabirgðalögum.