18.12.1916
Neðri deild: 2. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

2. mál, útflutningsgjald af söltuðu sauðakjöti

Framsm. (Pjetur Jónsson):

Jeg hefi ekki miklu að bæta við það, sem jeg hefi áður sagt. Það er tekið fram í athugasemdinni við frv., eins og það kom frá stjórninni hvernig á því stendur, að frv. þetta er fram komið. Háttv. þm. Dala. (B. J.) veit það eins vel og nefndin, að það eru Bretar, sem ætlast er til, að fengju þessar 300 tunnur af kjöti. Vjer vitum það eitt, að tilkynning um þetta skilyrði fyrir útflutningsheimild kjötsins kom til stjórnarinnar frá bretska konsúlnum hjer og sömuleiðis frá Birni Sigurðssyni, sem er umboðsmaður íslensku stjórnarinnar í Lundúnum; en um hitt erum vjer jafn ófróðir og háttv. þm. Dala. (B. J.), hvað Bretar ætla sjer að gjöra við kjötið. Jeg get einungis sagt frá þeirri tilgátu, sem jeg hefi heyrt fleygt, að þeir ætli að hafa það sem einskonar »Pröve« handa hernum, til þess að fá vitneskju um, hvort ekki væri hægt að fá menn til að borða það. En jeg sel þetta ekki dýrara en jeg keypti.

Annars hefir nefndin engar frekari upplýsingar að gefa í þessu máli, því að hún veit ekki frekar.