10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (246)

7. mál, mæling á túnum og matjurtagörðum

Framsm. (Stefán Stefánsson):

Þessu frv. um breytingu á túnmælingalögunum, sem nú er til umræðu, var vísað til landbúnaðarinnar, en álit hennar um málið og breytingar, sem farið er fram á í frv., er á þgskj. 75. Breytingarnar eru þær: 1. að mælikvarði ummálsdrátta af túnum og matjurtagörðum verði 1 : 1000 í stað 1 : 2000, ef hann rúmast á örkinni, en annars haldist mælikvarðinn 1 : 2000. Þessa breytingu eða tilbreytni í samskonar starfi, telur nefndin fremur óviðfeldna, og eigi heldur nauðsynlega, enda eðlilegast, að allir ummálsdrættir sje með sömu stærðarhlutföllum, því að hafi maður t. d. marga ummálsdrætti fyrir framan sig, og vilji sjá stærðarmun túnanna, þá er það óneitanlega dálítið óaðgengilegra, að ummálsdrættirnir sje af tvennskonar gjörð, heldur en þeir að þessu leyti sje allir steyptir í sama móti. Hitt, að láta arkarstærð ráða í lagaákvæði, virðist mjer enn fremur alls ekki viðeigandi. Sem sagt hefir nefndinni virst breytingin miða fremur til skemda en bóta. Í þessu sambandi vil jeg láta þess getið, að mikilhæfur og búfróður mælingamaður einnar sýslu, hefir verið spurður, hvort brýna nauðsyn bæri til, að breyta mælikvarðanum frá því, sem ákveðið er í lögunum, og taldi hann enga nauðsyn bera til þess. Óánægju af hendi mælingamanna hefi jeg heldur eigi orðið var við, nema hvað snertir einn mælingamann, er lagt hefir fram erindi um þetta á lestrarsalinn. Það eru því fleiri en nefndin, sem enga þörf telja á þessari breytingu. Vilji bændur fá uppdrætti, sem væri ásjálegir eða til prýði og skemtunar, og sem þá sýndu alt landslag og húsaskipun mjög greinilega, mundi hverjum einum það auðfengið hjá sínum mælingamanni, með því að borga miklum mun meira fyrir uppdráttinn. Þetta tel jeg líklegt, að einstöku bændur óski eftir, en það verður alls ekki það almenna. Þá uppdrætti, er sýna að eins ummálslínuna, virðist ekki ástæða til að hafa stærri eða öðruvísi en tiltekið er í lögunum.

Þá er hin breytingin, sem frv. fer fram á, sú, að sá hluti mælingakostnaðar, sem ákveðið er, að leggist á býli þau, sem metin eru til dýrleika, leggist á öll býli, hvort sem þau eru metin til dýrleika eða ekki. Nú er svo ákveðið í lögunum, að landssjóður greiði 3 kr. á hvert býli, sem metið er til dýrleika, og sú upphæð dragist frá öllum mælingakostnaðinum, en það, sem þá er eftir af kostnaðarupphæðinni, greiðist að hálfu eftir tölu býla, sem metin eru til dýrleika, en að hálfu eftir hundraðatali.

Nefndin sjer ekki ástæðu til, að þessi helmingur, er leggja skal á eftir tölu býla þeirra, sem metin eru til dýrleika eftir lögunum, verði lagður á öll býli, af því að venjulegast munu sundurskiftar jarðir vera hærri að hundraðatali en aðrar í þeirri sveit, og þá koma á þær meiri gjöld, því að niðurjöfnun hreppsnefnda fer eftir hundraðatali. Þessi helmingur mun því jafnaðarlega verða meiri á þeim jörðum, sem skiftar eru niður í fleiri býli. Að vísu má ekki jafna meiru en 10 kr. að þessum hluta á nokkura einstaka jörð. Með öðrum orðum, allur kostnaður, sem fallið getur á hundraðaflestu jarðirnar, getur orðið alt að 23 kr. Þetta virðist nefndinni svo rífleg borgun, að ekki sje heldur nauðsynlegt þess vegna að breyta lögunum, því að sennilega fellur einhver hluti þeirra 10 kr., er legst á eftir hundraðatalinu, á þau sjerstöku býli, sem bygð hafa verið í landi jarðarinnar, hvort sem þau eru seld undan jörðinni eða ekki.

Annars finnast nefndinni þessar breytingar, sem hjer er farið fram á, svo smávægilegar, að ekki sje ástœða til að fara að breyta lögunum þess vegna.

Því er það eindregið álit nefndarinnar, að frv. þetta beri ekki að samþykkja.