10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (247)

7. mál, mæling á túnum og matjurtagörðum

Sigurður Sigurðsson:

Jafnvel þótt jeg sje nú ekki vel upplagður, til að fara að tala, þá verð jeg þó að segja nokkur orð. Jeg þakka landbúnaðarnefndinni fyrir góðar undirtektir í þessu máli, um breytingu á túnmælingalögunum, — eða hitt þó heldur. Jeg verð að játa það, að jeg bjóst ekki við, að hún hefði svona mikið að athuga við ekki flóknara mál en þetta er. Og því fremur furðaði mig á því, þar sem breytingarnar miða ótvírætt allar til bóta. Og ekki síst er jeg hissa á því, af því að þeir nefndarmanna, sem jeg hefi átt tal við um málið, virtust ekkert hafa á móti því, að frumvarpið næði fram að ganga, þótt þeim þætti það nú raunar ekki sjerlega mikilsvert.

Eins og jeg gat um við 1. umræðu þessa máls, þá var það fyrir tilmæli eins mælingamanns sjerstaklega, að jeg fór fram á þetta. Til frekari árjettingar hefir hann nú sent þinginu álitsskjal um málið, en jeg hefi ekki átt kost á að sjá það. Þegar jeg beiddi um það, þá var það hjá öðrum. Nú sje jeg, að frsm. hefir það með höndum. Og fyrst svo er, þá hefði jeg haldið, að háttv. frsm. (St. St.) hefði tekið til greina þær ástæður, sem þar eru tilfærðar.

Fyrst jeg nú hefi ekki átt kost á að sjá nefnt álitsskjal, þá get jeg ekki bygt á því, sem þar er sagt, en verð að halda mig við mótbárur þær, sem komið hafa fram hjá nefndinni

Nefndin telur óviðfeldið að hafa tvennskonar mælikvarða á ummálsdráttunum, enda sje meira um vert, að fá að vita hina rjettu stærð ræktaðs lands en hitt, að fá ummálsdrættina stóra, segir hún. En þó svo væri, að tvennskonar mælikvarði yrði leyfður, þá sje jeg ekkert við slíkt að athuga. Ummálsdrættirnir af litlu túnunum yrðu við það skýrari, ef mælikvarðinn væri hafður 1:1000, en engin minsta hætta á misskilningi fyrir það, þar sem alt af er tekið fram á hverjum uppdrætti, eftir hvaða mælikvarða hann sje gjörður. Þykist jeg vita, að háttv. form. landbúnaðarnefndarinnar (St. St.) sje ekki ókunnugt um það. Þegar vjer því höfum ummálsdrættina fyrir oss, sjest strax hver mælikvarðinn er, og lítil hætta á sjónvillum. Engan kostnað hefir í för með sjer, að leyfa tvennskonar mælikvarða. Ekki þarf því sú ástæða að fæla menn frá að aðhyllast tillöguna, um tvennskonar mælikvarða.

Um hitt atriðið, hvernig kostnaðinum við mælinguna skuli jafnað niður, get jeg ekki verið samþykkur nefndinni, og er mjer meira að segja naumast unt að skilja, hvað hún á við í því efni.

Jeg held, að það sje alment álitið, að það sje galli á túnmælingalögunum, er þau ákveða, að kostnaði skuli jafna niður á þau býli ein, sem metin eru til dýrleika, en undir þann leka er nú einmitt sett með þessu frumvarpi, þar sem það kveður svo á, að þeim hluta kostnaðarins, sem ekki sje greiddur úr landssjóði, skuli jafnað niður á býli þau, sem mælt er á, hvort sem þau eru metin til dýrleika eða ekki. Þetta er svo auðsæ bót, að jeg skil ekki hvað háttv. nefnd getur haft á móti henni. En jeg nenni ekki að standa í neinu stímabraki við nefndina um þetta. Jeg flutti málið ekki inn í deildina sem neinn keppihest, er jeg ætlaði að berjast fyrir mjer til ábata. En hitt þykir mjer leiðinlegt, hversu mjög jafn einfalt og auðskilið mál og þetta er, hefir getað orðið þeim góðu mönnum erfitt og torskilið.