10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

7. mál, mæling á túnum og matjurtagörðum

Framsm. (Stefán Stefánsson):

Mjer þykir ekki nema eðlilegt, að háttv. 1. þm. Árn. (S. S.) þykist hafa ýmislegt að athuga við framkomu landbúnaðarnefndarinnar í þessu máli, en jafnframt verð jeg að vænta þess, að hann hafi leitast við að skilja ástæður hennar, sem fram eru færðar í nefndarálitinu og því, sem jeg tók fram í minni framsögu. En það er mjer óskiljanlegt, að hann skuli álasa nefndinni fyrir að vilja ekki láta ræða mál, sem hún sjálf var algjörlega mótfallin. Háttv. þingmaður (S. S.) skilur þó vonandi, að annaðhvort hlýtur nefndin að vera með málinu, og þá leggja til að það gangi fram samkvæmt venjulegri meðferð mála í þinginu, eða legga á móti því, og ráða þá til þess, að það sje felt, eða með öðrum orðum, að þingið hafi það ekki lengur til meðferðar. Þessa afstöðu nefndarinnar hlýtur háttv. flutnm. frv. (S. S.) að skilja, og þá jafnframt viðurkenna, að þar sem hún er eindregið mótfallin framgangi þess, þá er um leið eðlilegt, að hún ráði til þess, að því sje styttar eymdarstundir.

Hvað snertir stærð ummálsdráttanna eða nauðsynina á, að þeir sje mismunandi, sem er önnur aðalbreytingin, þá hafði flutnm. (S. S.) ekkert nýtt að segja, sem veitti þeirri tillögu hans verulegan stuðning. En eins og jeg tók fram áleit nefndin þá breytingu óþarfa, jafnvel fremur til skemda, og kunnugt er mjer um það, að framsögumaður þessa máls á síðasta þingi, sem auk þess vann mikið að lögunum, og ber mjög gott skyn á þessa hluti, er þessu mjög mótfallinn, og telur breytinguna til stórskemda. Og óneitanlega er það miklu óviðfeldnara, að hafa ekki einn og sama mælikvarða á öllum þeim túnum, sem mæld verða, enda get jeg ekki heldur sjeð hvað gjörir til, þótt litlu túnin sje ekki höfð í stærri mælikvarða en 1:2000, þegar þessi mæling á að eins að vera ummálsmæling. Þessir uppdrættir eiga ekki að sýna landslag, ekki hvar þýft sje eða sljett, ekki hæðir eða dældir eða neitt því um líkt. Þessir drættir geta því aldrei orðið nein stofuprýðir, eða til skemtunar, á annan hátt en þann, að gefa til kynna ummálsstærð þess túns eða garðs, sem mælt er. En ef bændur vilja fá nýtilegan uppdrátt af túnum, verða þeir eftir sem áður að fá hann á sinn eigin kostnað.

Þar sem hjer er nú að eins um ummálsdrætti að ræða, leitst nefndinni ekki ómaksins vert, að fara að breyta lögunum þess vegna.

Háttv. þm. (S. S.) sagði, að það væri alment viðurkent, að galli væri á túnmælingalögunum, er þau ákveða, að kostnaði af mælingu skuli jafna niður á þau býli ein, sem metin eru til dýrleika. En jeg verð að játa það, að þetta er í fyrsta skiftið, sem jeg hefi heyrt undan því ákvæði kvartað, og umkvörtunin meina jeg að sje aðallega frá einum manni, sem að öllum líkindum hefir fengið háttv. þm. (S. S.) til að bera fram frv. Annars væri það dálítið kynlegt, að sýslunefndir, sem málið varðar, og hafa ráðið samkvæmt lögunum sína mælingamenn, skuli ekki hafa sent kvartanir, ef svo tilfinnanlegur galli væri á gjaldmátanum, sem háttv. flutnm. (S. S.) virðist álíta. Og eins og jeg hefi tekið fram, þar sem jarðirnar, sem skift er sundur í fleiri býli, eru venjulega hærri að hundraðatali en jarðir alment, þá lendir á þeim hærra gjald en á flestum öðrum jörðum í þeirri sveit. Einmitt þess vegna sýnist lítil ástæða til, að leggja sjerstakt gjald á hvert aukabýli, að öðru leyti en því nemur, sem þau hljóta að skoðast mikill hluti úr aðaljörðinni, sem þá er goldið fyrir sjerstaklega.

Að svo mæltu sje jeg ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta dauðadæmda mál.