05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

29. mál, ullarmat

Einar Jónsson :

Jeg tók eftir þeim orðum háttv. flutnm. (B. J.), að hann bjóst ekki við mótmælum. Hygg jeg því, að hann furði sig á, að jeg stend nú upp til að mótmæla ræðu hans. (Bjarni Jónsson: Jeg er ætíð þakklátur fyrir mótmæli frá þessum háttv. þm.). Jeg hygg þetta frv. mjög athugavert. Vjer, sem fluttum lög þessi og samþyktum þau hjer á þingi, hugðum, að með þeim væri trygð meiri vöruvöndun og fastara verð. Nú tel jeg góðar horfur á, að þessi lög muni verða til þess, að varan verði vönduð, og sýnist mjer þá tilgangi laganna náð. Á þessum stríðstímum koma þau að vísu að litlu gagni, og síðastliðið ár hefðum vjer verið betur settir með engin ullarmatslög. En aðalástæða mín móti þessu frestunarfrv. er sú, að þegar lögin eru sett, og útlendir ullarkaupendur vita, að lögin eru til og komin til framkvæmda, þá reiða þeir sig á flokkun og vöruvöndun eftir lögunum. Nú komast menn áreiðanlega fljótar upp á vöruvöndun, ef lögin standa í gildi. Tel jeg því frestun á framkvæmd laganna óráðlega. Jeg hefi sjálfur, við umhugsun um málið, komist að þessari niðurstöðu, en jafnframt get jeg tekið það fram, að jeg hefi átt tal við Sigurgeir Einarsson ullarmatsmann, sem allir treysta vel í þessum sökum. Er hann eindregið á móti frestuninni. Jeg er manninum persónulega kunnugur, og veit, að hann er samviskusamur og segir það eitt, er hann veit sannast og rjettast. Þegar því skoðun hans fer saman við mína skoðun, hlýt jeg enn ákveðnara að halda henni fram.

Jeg held, að háttv. þm. Dala. (B. J.) og aðrir flutningsmenn frv. hljóti að sjá, að það er hæpin leið, að fresta framkvæmd laganna. Jeg veit að hv. þm. gjörir þetta í bestu meiningu. En jeg hygg, að flestir sje málinu kunnugri en hann, og hefði hann því ekki átt að vera með í flutningi þessa frv.