05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

29. mál, ullarmat

Pjetur Jónsson:

Jeg vil taka í sama streng og háttv. 2. þm. Rang. (E. J.). Jeg tel misráðið að kippa til baka þessum lögum, þar sem þau nú eru komin í framkvæmd. Má vel vera, að lögin hefði betur ekki verið komin til framkvæmda í fyrra, sakir samningsins við Bretastjórn. Jeg veit ekki, hvort menn hafa veitt því eftirtekt, að samningurinn tók einmitt breytingum, vegna ullarmatsins. Var það mjög fyrir milligöngu Sigurgeirs Einarssonar, sem kom því til leiðar, að breytinga var leitað. T. d. var II. flokkur af hvítri þveginni ull færður mikið upp, og varð svo ekki nema 10 aura munur á I. og II. flokki.

Jeg fæ því ekki sjeð, að neinn bagi hafi verið að ullarmatslögunum í þessu sambandi. Mjer þykir ólíklegt, að Englendingar hefðu viljað taka alla svokallaða hvíta og þvegna vorull í fyrsta flokk og þar með þriggja króna verðlagið. Líklega hefði þeir miðað við hina eldri flokkun ullarinnar á útlendum markaði. Skilgreining ullarinnar var áður þessi: Norðlensk ull „prima“ og „secunda“ og sunnlensk ull „prima“ og „secunda“. Hygg jeg, að við þetta hefði verið miðað, er samningarnir voru gjörðir, hefði lögin ekki verið.

Jeg tel vafalaust, að í samningum við Breta yrði það tap, og jafnvel hættulegt, ef ullarmat yrði nú felt úr lögum, eða lagt niður að sinni. Það er nú ráðið, að erindsrekar fari til London, til þess að vera við samninga við bresku stjórnina, og verðlag það á ull, er þeim hefir verið falið að framfylgja, er bygt á ullarmatsreglunum.

Ef litið er á tilgang laganna, vöruvöndunina, hljóta menn að sjá, að stórum er spilt með því, að fella niður framkvæmd laganna, þótt um stundarsakir verði. Tilgangurinn er sá, að fá íslenska ull viðurkenda sem ósvikna vöru á erlendum markaði. Og þótt byrjunin sje ekki stór enn, þá er hún spor í áttina að minsta kosti. Jeg er viss um, að slegið verður slöku við framhaldandi vöruvöndun, ef lögunum er kipt burtu.

Jeg fæ ekki skilið, að flutningsmenn þessa frv. sje málinu kunnugri en jeg, sem fengist hefi við ullarsölu og umbætur á ullarverkun í 30 ár.