05.01.1917
Neðri deild: 15. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

29. mál, ullarmat

Einar Jónsson :

Mjer finst raunar ekki ómaksins vert, að tala frekar í máli þessu, því að það liggur ljóst og einfalt fyrir, þótt nú sje verið að reyna að skapa á það aðra hlið.

Þessi lög voru sett til þess, að ullin yrði betur vönduð og kæmist í fastara verð. Hver, sem þá fylgdi lögunum, ætti að gjöra það enn þá. Annað væri hringlandaháttur.

Þegar háttv. flutnm. (B. J.) vænir mig um fylgi og hollustu við erlenda ullarkaupendur, er það fjarstæða ein.

En hinu held jeg fast fram, þegar útlendingar sjá hjer samþykt og lögleitt ullarmat, reiða þeir sig betur á vöndun vörunnar. Kynni þeim þá að virðast kynlegt, ef Alþingi tæki það til bragðs, að afnema lögin. Þetta hlyti að spilla fyrir ullarsölunni.

Þar sem háttv. flutnm. (B. J.) segist hafa betra vit á ull heldur en jeg, nær það vitanlega engri átt. Jeg efast um, að hann þekki ull frá búk- eða hundshári, eða kind frá kálfi. Jeg skal fúslega játa, að jeg kann ekki orð í grísku. Þar mun hann geta boðið mjer út. En skyldi jeg ekki geta boðið honum út í margt? T. d. rista torf, hlaða vegg, slá og raka o. s. frv. Yfir höfuð í allri ærlegri vinnu kristinna og dugandi manna.

Jeg vildi í fullri alvöru óska þess, að hæstv. þingdeild færi ekki að hrófla við ullarmatslögunum. Mjer gengur hjer engin eigingirni til, nje fylgi við útlendinga, heldur vil jeg að lögin standi og ullin komist í fast verð. Fyrirspurn háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) var sanngjörn. Hvað á að gjöra við ullarmatsmennina, ef lögunum er frestað? En að vísu ræður sú spurning ekki að neinu leyti minni stefnu í málinu. Sem sagt, þá er það ekki af eigingirni, að jeg er andvígur þessu frv., og allra síst gengur mjer það til, að jeg vilji bæta kjör útlendra ullarkaupmanna. Fyrir mjer vakir það eitt, að ullarmatslögin tryggja það, að varan verði betur vönduð og verðið fastara.

Jeg er á sama máli og háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að ullarmatsmenn ættu ekki að fá kaup, ef lögunum yrði frestað. Þeirra er þá ekki lengur þörf, og vinna þeirra hverfur af sjálfu sjer.