12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

29. mál, ullarmat

Framsm. minni hl. (Pjetur Þórðarson):

Jeg get ekki verið sammála háttv. meiri hl. nefndarinnar í þessu máli. Verð það á ullinni, er vjer höfðum vanist fyrir ófriðinn, var 60—80 aura fyrir hvert pund. Svo koma þessir óeðlilegu viðskiftatímar, og þá (1915) hækkar verðið á ullinni og kemst upp í 2 kr. 25 aura eða meira hvert pund, án þess að það sje nokkur afleiðing af ullarmatslögunum, sem þá voru lítt á veg komin. Það sem olli þessu háa verði, voru hin óeðlilegu viðskiftalögmál. Um sama leyti er verið að búa undir þessi lög, og þau ganga í gildi síðastliðið ár. Jeg játa, að tilgangur þeirra er í alla staði rjettmætur, en eins og sakir hafa staðið síðan þau öðluðust gildi, hefir þessi tilgangur þeirra síst komið í ljós í hærra verði. Ullarverð fjell mjög tilfinnanlega 1916, og það sem verra var, að kaupendur gjörðu mjög litinn verðmun á flokkunum, en vitanlega var varið miklu fje og fyrirhöfn til framkvæmdanna; þegar svo er farið að bjóða útlendingum flokkaða ull, þá kemur í ljós, að 1. flokks verðið er hið sama, og mundi hafa fengist fyrir óflokkaða ull, en eitthvað minna fyrir hina lægri flokka. Þessi verðmunur er því tapað fje vegna framkvæmda laganna.

Bæði frá framleiðendum og seljendum hefi jeg fengið þær upplýsingar, að matið hafi gjört tjón. Bæði er kostnaðurinn við það, og svo hitt, að geta ekki fengið sama verð fyrir lakari tegundina, sem mundi hafa orðið, ef lögin hefðu ekki komið til framkvæmda. Vegna þessa tel jeg, að lögin hafi ekki náð tilgangi sínum. Þvert á móti. Það hefir einmitt fengist svo litlu meira verð fyrir 1. flokk, að ekki borgar sig að hugsa um 1. flokks vöru, heldur bendir fenginn reynsla til þess, að best borgi sig að framleiða 2. flokks vöru, eða enn þá lakari, meðan svona stendur. Finst mjer því ekki skaða, að fresta framkvæmd þeirra, uns ástandið breytist.

Háttv. framsm. meiri hl. (St. St.), lagði áherslu á, hvað miklu væri búið að kosta til undirbúnings og framkvæmda laganna. Maðurinn, sem undirbúið hefir ullarmatið, teldi óhjákvæmilegt að framkvæmd þeirra hjeldi áfram. Nú þykist jeg hafa sýnt, að þau nái sjer ekki niðri. öllu heldur virðast þau fjarlægjast sinn eiginn tilgang, vöruvöndunina. Eins er um það, sem hann talaði um óhreinindin í ullinni. Sem stendur er ekkert, sem ætti að hvetja menn til að leggja á sig fyrirhöfn við hreinsun ullarinnar. Jeg er ekki kunnugur samningum vorum við Breta, hvað ullina snertir, eða hvort þeir muni heimta ullina flokkaða, ef þeir kaupa. En fróður maður hefir sagt mjer, að enn þá hafi ekki mikill hluti af ullinni farið til Breta. Get jeg því ekki gjört mikið úr matsskilyrðinu. Jeg hefi ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um málið. Jeg get tekið það fram, að persónulega er mjer þetta ekki mikið kappsmál, en jeg held, að þeirri ástæðu fyrir þessu frv., verði ekki hnekt, að matið hafi valdið þjóðinni fjárhagslegu tjóni, og líkur til, að hinu sama fari fram meðan stríðið stendur, ef frv. nær ekki fram að ganga.