11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Það er sama að segja um þetta frv. og hið fyrra (síldartollinn), að fram hafa komið brtt., sem jeg vil leggja til, að deildin samþykki ásamt frv.

Um frv. sjálft er það að segja, að það er eiginlega ekki annað en afleiðing af hinu frv., svo að ef það er látið ganga fram, þá verður þetta að gjöra það líka. Það þýðir ekki að draga neinn dul á það, að ekki er tilgangurinn með hinu fyrra frv. að láta hækkunina, sem af því leiðir, koma niður á landsins eigin börnum, og láta þau bíða tjón. Þau þurfa að fá endurgreiddan þann halla, sem þau verða fyrir af frv. Til þess er þetta frv. fram komið.

Þess ber að gæta, að þótt þetta verðlaunafrumvarp verði að lögum, þá verða þó íslenskir síldveiðamenn harðar úti en þeir hafa orðið áður. Hingað til hafa 10% af útflutningsgjaldinu fallið til Fiskiveiðasjóðs Íslands, og því hefir, samkvæmt lögum, verið varið til styrktar síldarútgjörð landsmanna. En samkvæmt frv. því, um útflutningsgjald af síld, sem verið hefir til umræðu hjer í deildinni, er ætlast til, að 5% af útflutningsgjaldinu falli til sjóðsins, og að því sje varið til eflingar sjávarútvegi yfirleitt. Eru lítil líkindi til, að síldveiðamenn njóti neins af því, því að margar eru þarfir sjávarútvegsins, sem nauðsyn er að sinna, svo sem hafnarbætur og lendinga, íshúsbyggingar o. fl.

En jeg treysti því, að síldarútgjörðarmenn bregðist vel við, þótt þeir missi af þessu, einkum nú, þegar landsjóði er þörf mikilla tekna. Þeir hafa eigi talið eftir þau gjöld, er á þá hafa verið lögð hingað til.

Hins vegar er það vitaskuld, að þeir geta eigi borgað hærra útflutningsgjald, en þeir hafa borgað hingað til, síst meðan erfiðleikarnir eru eins miklir og þeir eru nú. Einkum er það hin afarháa skipaleiga, sem erfiðleikunum veldur, auk þess, sem verð á öllum nauðsynjum hefir margfaldast og vinnulaun hækkað mjög mikið.

Jeg var spurður um það rjett núna fyrir þingfundinn, hvort jeg gæti eigi fallist á, að þessu frv. yrði frestað til næsta þings. Jeg gæti ef til vill fallist á, að því yrði frestað, ef frv. um útflutningsgjaldið yrði einnig frestað. En ef það gengur gegnum þingið, sem mikil líkindi eru til, þá get jeg með engu móti fallist á, að þessu frv. sje frestað. Jeg mundi eigi þora að eiga undir því, að næsta þing samþykti það, en það teldi jeg óhæfu, að útflutningsgjaldið yrði samþykt, en verðlaunafrv. hafnað. Jeg þykist vita, að hjer í þinginu sje þeir menn, og líklega fleiri en margur hyggur, sem gjarnan vilji ná í útflutningsgjaldið, en ekkert endurgreiða af því til útgjörðarmannanna; en það tel jeg hróplegasta ranglæti gagnvart þeim.

Jeg fæ heldur eigi sjeð hvað ynnist við að fresta því.

Jeg hefi að vísu heyrt menn segja, að Norðmenn og Svíar mundu síður ýfast við oss, ef útflutningsgjaldið næði jafnt til sjálfra vor og þeirra.

En ef það er meining manna, að verðlaunafrv. beri að fresta eingöngu til þess, að svo liti út, sem vjer ætlum að láta útflutningsgjaldið ganga jafnt yfir oss og aðra, en samþykkja svo verðlaunafrv. seinna, t. d. á næsta þingi, þá verð jeg eindregið að leggja móti því, og það af þeirri ástæðu, að mjer virðist það blátt áfram ódrengileg aðferð gagnvart þeim útlendu þjóðum, er hlut eiga að máli.

Jeg vil ekki að Norðmenn og Svíar gangi þess duldir, að vjer viljum eigi gjöra þeim jafnt undir höfði og landsmönnum sjálfum, og ef þeir nota land vort svo, að oss sje bagi að, þá viljum vjer að minsta kosti ná einhverjum tekjum af þeim.

Jeg vona að engir deildarmenn verði til þess, að leggja hindranir á leið þessa frv., fremur en frv. um útflutningsgjaldið.