11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (281)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Jeg bjóst ekki við eins ákveðnum mótmælum gegn þessu máli og raun er á orðin. Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) þekkir ekki sjávarútveginn. Hann vill íþyngja honum einmitt af því, að hann þekkir hann ekki. Því þó að menn hafi grætt á útgjörð, þá hefir sá gróði eigi fengist með síldarútgjörðinni. Aftur á móti hafa útgjörðarmenn oft grætt stórfje á þorskveiðunum, en síldarútgjörðin hefir sjaldan gjört betur en fleyta þeim áfram Á henni hafa þeir aldrei grætt stórfje. Enda er nú orðið dýrt að reka síldarútgjörð. Hver tunna kostar nú 20-30 kr. og með salti yfir 30 kr. Nætur hafa stígið í verði yfir 40%.

Þegar um er að ræða mismuninn á kjörum norskra og íslenzkra síldarútgjörðarmanna, sjer maður fljótt, að Norðmenn standa þar miklu betur að vígi. Íslendingar verða að kaupa salt og tunnur utanlands frá með mun hærra verði en Norðmenn, og stafar sá verðmunur aðallega af meiri flutningskostnaði, en Norðmenn flytja mikið af þessu með sjer á þeim skipum, sem þeir nota hjer til veiðanna, auk þess sem þeir nota gömul aflagsskip til flutninga og láta þau liggja hjer á höfnunum um veiðitímann, og nota þau þá sem geymsluhús, og er það þeim enn fremur sparnaður. Og þó að þeir fengju ekki hærra verð fyrir sína síld en vjer fyrir vora, væri aðstaða þeirra samt betri. En nú fá þeir þó 10-20% hærra verð fyrir sína síld.

Þessi tollur yrði þeim því ekki tilfinnanlegur.

Hjer er fyrst fyrir alvöru, að stinga upp höfðinu óhyggilegur og óheppilegur rígur milli sjávarútvegs og landbúnaðar, þar sem gjörð er tilraun til að ama sjávarútveginum í hagsmunavon fyrir landbúnaðinn.

Jeg er ekki í neinum efa um hver leikslokin yrði í því stríði, og það er af umhyggju fyrir landbúnaði vorum, að jeg vildi óska að hamingjan gæfi þingi voru þau hyggindi, að það leggi aldrei út í það stríð.

Landbændur hafa nú yfirtökin hjer á þinginu og ef þeir nota þau til þess að halla á þann atvinnuveg, sem fæðir jafnmikinn fjölda landsmanna og síldarútvegurinn gjörir, þá vinna þeir landinu hið mesta óhappaverk, sem hægt er að hugsa sjer.

Tilgangi sínum að lyfta landbúnaðinum á kostnað sjávarútvegarins, næðu þeir aldrei, því að ef sjávarútveginum yrði svo íþyngt, að hann gæti eigi borið sig sæmilega, þá mundu útgjörðarmenn heldur leggja upp skipum sínum en að stofna sjer í ófæru, og afleiðingin af því ætti að vera öllum ljós.

Það stafar af vanþekkingu landbúnaðarmanna, ef þeir halda að allir, sem við síldveiði fást, græði of fjár. Það eru að eins örfáir menn, sem græða talsvert, og þá eigi hvað minst vegna þess, að þeir hafa kaupsýslustörf jafnframt. Þeir, sem eingöngu veiða síld, og selja hana óverkaða, eiga í vök að verjast að láta útgjörðina bera sig, og sumir hafa blátt áfram tapað á henni.

Er það meðal annars af því, að þeir hafa eigi bein í hendi til að afla sjer tunna og salts, og þá enn fremur af því, að þeir geta eigi komist að landi, nema við bryggjur annara, sem kaupa af þeim síldina, og það eru mest útlendingar, Norðmenn og Svíar, sem bryggjurnar eiga, og veiða svo rjómann af útgjörðinni. Hefi jeg oftsinnis tekið það fram, hve óþolandi þetta ástand er.

Sje það ásetningur háttv. deildar að láta tollfrumvarpið ganga fram, en fella þetta frv., þá hefi jeg þá einu von, að háttv. Ed. hafi vit fyrir þinginu og hindri þá einnig framgang tollfrumvarpsins, og lendir þá sú ábyrgð á þessari háttv. deild, að hafa svift landsjóðinn alt að ½ miljón króna tekjum, landsmönnum að meinalausu.