12.01.1917
Neðri deild: 23. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (291)

45. mál, verðlaun fyrir útflutta síld

Bjarni Jónsson:

Jeg vildi benda hæstv. forsætisráðh. (J.M.) á, að jeg ætlaðist til, að till. mín um að setja orðið „þegn“ í staðinn fyrir „borgari“, væri samþykt án atkvæðagreiðslu, sem orðabreyting. Hafði jeg ekki athugað það, að þetta var felt hjer í gær.

„Íslenskir borgarar“ held jeg að geti ekki þýtt annað en það, sem á dönsku er kallað „islandske Statsborgere“, og því nákvæmlega sama sem íslenskur þegn, og þá ekki lausara eða meðfærilegra orðalag en hitt.

Að því er snertir orð háttv. 2. þm. Árn. (E. A.), þá er það ekki rjett, að ræða mín hafi ekki verið annað en hugheilar óskir.

Minn skilningur í máli þessu er bygður á því, sem bæði jeg og hann álíta rjett vera. Það voru ekki mín orð, að frv. þetta væri að orðalagi til í samræmi við önnur lög, en jeg hjelt því fram, að ef þingið samþykti frv. þetta, þá yrði það að afnema önnur ákvæði, sem andstæð eru.

En ekki skal jeg þrátta um það, hvort slíkt er gjörlegt eða ekki. Jeg vildi að eins, að þingið tæki sjer tíma til að athuga þetta, og mun jeg svo láta útrætt um málið.

Forseti tók málið út af dagskrá samkvæmt ósk nokkurra þm.