11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

48. mál, afnám laga

Gísli Sveinsson:

Jeg verð að gjöra örfáar athugasemdir. Jeg get sagt eins og margir aðrir, að verðhækkunartollslögin frá síðasta þingi voru mjer ekkert gleðiefni. Og það hafa þau ekki verið þeim, er reka þær atvinnugreinar, er hann fellur aðallega á. Það er ekki rjett, eins og líka háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) tók fram, að tollur þessi falli eingöngu á tvær stjettir manna, fiskimenn og bændur. En viðvíkjandi því, að hjer er í frumvarpsformi lagt til að afnema þessi lög nú, þá tel jeg það alls ekki fært, eins og stendur. Mjer þykir kynlegt, að einn af meðnefndarmönnum mínum í fjárveitinganefndinni kemur með slíkt frv., og það svona fljótt, þótt það sje ekkert við það að athuga, að hann hafi í huga, að gjöra það á sínum tíma. Mjer fanst liggja í hlutarins eðli, að hann gæti ekki nú lagt það til, að tekjur landssjóðs væri rýrðar að miklum mun. Jeg held að nú hafi verið stofnað til svo mikilla útgjalda, sem ekki eru reiknuð enn þá. Sá kostnaður er óviss. Hjer á þinginu er verið að afgreiða heimildir fyrir talsvert miklum útgjöldum úr landssjóði, til skipakaupa, dýrtíðaruppbótar o. s. frv. Því síður er ástæða til að flýta þessu, þar sem það er alls ekki víst, að frv. um síldartoll nái fram að ganga. Það á bæði eftir meðferð hjer í deildinni, og auk þess þrjár umræður í Ed. Og enginn veit um forlög þess, þótt það komist út úr þinginu, því að margir eru þar í vafa. Sje jeg því ekki, að vjer getum ráðist í afnám tolla á þessu þingi. Á næsta þingi, reglulegu þingi í sumar, þá er meiri verður tími, er rjettara að taka það til athugunar. Þá verða lögin um útflutningstoll á síld væntanlega komin ígildi. Jeg býst við, að hv. þm. Dala. (B. J.) gjöri ráð fyrir að þau verði samþykt. (Bjarni Jónsson: Nei.) Þá furða jeg mig á, að hinn hv. þm. vill auka gjöld landssjóðs, en jafnframt afnema tolla alla og tekjur. Það tel jeg óhæfilegt. Jeg hjelt, að hann hefði miðað við það, að síldartollurinn mundi nægja.

Eitt vildi jeg taka fram enn, sem ástæðu fyrir því, að jeg er móti frv. þessu, eins og nú standa sakir, sem sje það, að ef tollurinn er afnuminn nú, þá er framið ranglæti gagnvart aðalatvinnuvegi landsins, sem er landbúnaðurinn. Fyrst vil jeg þó minnast á ranglæti við sjávarútveginn, sem verður, ef verðhækkunartollurinn er afnuminn, en aftur samþykt lög um útflutningsgjald á síld. Ef lagt er hátt útflutningsgjald á síld, en slept verðhækkunartolli af öðrum fiski, er með því drýgt ranglæti á nokkrum hluta sjávarútvegarins. Jeg vil að þessi tollur haldist á fiski og síldinni líka.

Þá kem jeg að ranglætinu gagnvart landbúnaðinum. Lögin um verðhækkunartoll gengu í gildi í september haustið 1915, og snertu þá þær afurðir, er koma til útflutnings eftir þann tíma. Tollurinn fellur þá á sjávarafurðir, aðallega vertíðarfiskinn 1916, og síldina það sumar, og á landbúnaðarafurðir vor og sumar og haust 1916. Auk þess var allmikið óflutt út af landbúnaðarafurðum frá sumrinu og haustinu 1915, er tollögin gengu í gildi, og fjell þá tollurinn einnig á þær.

Með öðrum orðum, inn undir lögin hafa þá komist tveggja ára landbúnaðarframleiðsla, en ekki nema eins árs sjávarafurðir, ef lögin eru afnumin nú þegar, og ekki næst í vertíðarfiskinn á þessu nýbyrjaða ári, 1917.

Af þessum sökum fæ jeg ekki sjeð, að oss beri að hrapa að því á þessu þingi að afnema lögin.