11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í B-deild Alþingistíðinda. (309)

48. mál, afnám laga

Flutnm. (Bjarni Jónsson); Jeg er háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) mjög þakklátur fyrir það, að hann hefir sagt mjer í fögru og vel settu máli, hvernig jeg skuli haga mjer.

Nefndina dreymir ekki um, að til eru nú í landsjóði 800 þús. kr., sem teknar hafa verið af tveim stjettum landsins — einu tveim stjettum landsins, mundi háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) geta sagt, því hann man alls ekki eftir, eða þekkir ekki skraddara og skóara og alla þá aðra, sem af handavinnu lifa, nje heldur kaupmannastjettina. Og þótt kjósendur hans í Suður-Þingeyjarsýslu, og aðrir þeirra nótar, sje látnir borga í landssjóð miljón krónur, þá sjer þm. enga ástæðu til, að leggja neitt á hinar aðrar stjettir landsins.

Þessu frv. hefir verið fundið til foráttu, að það gæti ekki um, hvað koma ætti í staðinn fyrir þessa tekjugrein landssjóðs. En á því herrans þingi 1915, þegar þessi skattur var samþyktur, þá var ekkert tillit tekið til þessara auknu tekna.

Þegar einhverjir þingmanna ætluðu að ljetta af einhverjum öðrum tollum, eða auka útgjöld landsjóðs, sem næmi þessum tolli, þá tóku þessir gömlu afturhaldsseggir að berja barlómsbumbuna, og fengu því til vegar komið, að tekjur og gjöld landssjóðs voru metin og áætluð alveg án tillits til þessa tals. Á því þingi, 1915, ljetu ýmsir af þessum bústólpum og landstólpum á þingi snúa sjer eins og þvöru, og enn er það svo, þótt hastarlegt megi þykja, að menn búsettir í Reykjavík skuli þurfa að beitast og berjast fyrir rjettindum og hag bænda móti sjálfum þeim, og þola svo brigsl og getsakir af þeim að launum. Annars er það um fyndni háttv. þm. S.-Þ. (P. J.) að segja, að honum lætur betur að berjast með öðrum vopnum en þeim; hann er maður svo hreinlyndur.

Um verðfall skipa er hið sama að segja og um hag landssjóðs. Það kemur ekki þessu þingi eða þessu máli við, heldur er það hlutverk stjórnarinnar, að bera undir næsta þing till. þess efnis, og sjá um að finna rjettláta tekjustofna.

En hitt, að losa þessar tvær stjettirlandsins við þenna rangláta skatt, það getur stjórnin ekki; það verður Alþingi að gjöra, og það er meira að segja hlutverk þessa þings.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) hjelt því fram, að ekki mætti afnema þessi lög, fyr en slitið væri samningunum. Hvaða samningum? Hjer er þess alls ekki gætt, hvort framleiðendur hafa nokkurn hag af framleiðslu sinni. Önnur hlið málsins er að eins skoðuð, þ. e. hvað fæst fyrir vöruna, en ekki hin, kostnaðurinn við framleiðsluna. Það er sannast að segja hver silkihúfan upp af annari frá þessu þingi 1915. Og svo vill ekki þingmaðurinn (P. J.) lofa mjer að segja satt um þetta þing. Þá skal jeg geta þess, að jeg mismælti mig áðan. Sagði jeg stjettir, þar sem jeg ætlaði að segja atvinnugreinir. Óþarft finst mjer, af þm. (P. J.) að gjöra mikið veður út af þessu, en það er nú einu sinni svo, að helstu sannanir þeirra og rök eru bygð á mismælum andstæðinganna. Það er algjör misskilningur, sem komið hefir fram hjá sumum þm., þar sem þeir tala um mig sem einn af embættismannastjettinni. Embættismenn þessa lands eru engin sjerstök stjett. Hjer er embættismaðurinn bróðir bóndans, sonur fiskimannsins og faðir handverksmannsins, verkamannsins o s. frv., svo algjörlega er rangt að tala hjer um sjerstaka stjett embættismanna.

Svo að endingu nokkur orð viðvíkjandi því, sem þm. V.-Sk. (G. Sv.) sagði. Mjer gat ekki komið til hugar, að bera .þetta frv. undir fjárveitinganefnd. (Gísli Sveinsson; Ekki mín meining). Jeg beið þess, að þeir, sem slæma samvisku hafa síðan 1915, bættu fyrir brot sín; en þegar örvænt var um, að þeir ætluðu að gjöra það, tók jeg málið upp, ekki fyrir fordildarsakir, heldur af því, að jeg áleit það þess vert. Jeg sje líka ekki annað en að samþykkja megi frv. þetta, sem alt annað á þessu þingi, með afbrigðum frá þingsköpunum. Hjer gefst og þinginu tækifæri til að sýna, að það vilji ekki níðast á sjerstökum stjettum, með því að samþykkja þetta frv. Og það er einmitt sjerstök ástæða til að flýta þessu máli nú á þessu þingi, til þess að búið sje að afnema lögin áður en tollurinn fellur á næsta sumar, svo að þessa árs afurðir sleppi við hann. En það hefir heyrst frá mest ráðandi manni fjárveitinganefndarinnar, að þingið hafi ekki tíma til að sinna málum eins og þessu. Það er víst af því, að þessum þm. liggur svo mikið á að komast heim í hjerað, til þess að segja frá frægðarverkum sínum.

Þeir, sem ekki vilja ljetta af þessum tolli nú á þessu þingi, sækjast um of eftir að ná í ull og aðrar afurðir bænda á næsta sumri, til þess að skella á þær ranglátum tolli. Þeir verða um of berir að þeirri öfund yfir góðu kjötverði bænda, sem ekki getur unnað þeim að halda hag sínum óskertum, heldur þarf að reita utan úr honum með þessum rangláta tolli.

Læt jeg nú útrætt um þetta mál. Jeg kæri mig ekki um, að karpa um það frekar, því sá, sem jeg hefði helst viljað karpa við, háttv. þm. S.-Þ. (P. J.), hefir sjálfur veitt sjer banasárið. — Bið um nafnakall.