11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (310)

48. mál, afnám laga

Skúli Thoroddsen:

Að eins örstutt athugasemd víðvíkjandi atkvæðagreiðslu, sem á nú fram að fara. Mjer hefir skilist svo, sem það sje afráðið af þeim þingmönnum, sem nú ætla sjer að hlaupa af þingi frá öllum málum óköruðum, eða hálfköruðum, að fella þetta frv. frá 2. umr. Þm. S.-Þ. (P. J) kastaði því fram, að þm. Dala. (B. J.) flytti þetta frv. að eins til að geta talað um það. Hvort sem þm. hefir sagt þetta í gamni eða alvöru, þá breytir hann eins og honum hafi verið alvara, því hann ætlar ekki að láta frv. njóta sömu rjettinda og önnur frv. og till., sem hann hefir verið aðalhvatamaður til, að afgreiddar yrðu með afbrigðum frá þingsköpunum, og hroðað af í flýti. Jeg verð að líta svo á, að hjer sje um svo þýðingarmikið mál að ræða, að sjálfsagt sje, þótt tíminn sje naumur, að láta það njóta sömu rjettinda og önnur frv., sem fram eru komin í sambandi við dýrtíðarmálið. En til þess, að atkvæði mitt með því, að málið fái að ganga til 2. umr., verði ekki skilið á þá lund, að jeg sje með frv., því að það er jeg ekki, taldi jeg rjett, að skýra frá ástæðunum fyrir atkvæði mínu.