11.01.1917
Neðri deild: 22. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 232 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

48. mál, afnám laga

Gísli Sveinsson:

Jeg hefi litlu við þau rök að bæta, sem jeg hefi áður fært móti frv., og þau rök eru jafnt í gildi nú, eftir að þm. Dala. (B. J.) er búinn að tala. Jeg ætlaðist aldrei til, eins og þm. gaf í skyn, að þetta mál kæmi til fjárveitinganefndar.

Jeg er, eftir afstöðu þm. til gjalda landsmanna, hissa á, að hann skuli nú vilja rjúka til að afnema þennan toll. Þm. hefir sjálfsagt enn ekki áttað sig á, að þetta frv. er ranglátt gagnvart landbúskapnum og þeim, sem hann stunda. Eins og jeg hefi sýnt fram á, voru árið 1915 miklar birgðir af búskaparafurðum óútfluttar, svo sem kjöt, ull, gærur o. fl., þegar lögin gengu í gildi. En það ár ná lögin ekki neinu af vertíðarfiski. Hann komst fyrst undir lögin 1916. Af þessu sjá allir, að ef lögin væru nú numin úr gildi, mundi mikið af sjávarafurðunum ekki koma nema einu sinni til tolls, en allar búskaparafurðir tvisvar. Enn vantar því vertíðarfisk 1917, til þess að vega salt. Þessi lög, sem þm. vill nú fá numin úr gildi, eiga því, ef fullnægja á öllu rjettlæti, að gilda til jafnlengdar 1917, eins og þau líka sjálf gjöra ráð fyrir, eða að minsta kosti lengur en til þessa tíma, er vjer nú tölum á. Þm. getur huggað sig við það, að þau eiga ekki að gilda lengur en þangað til í sumar, þá falla þau af sjálfu sjer, og er óþarft, og meira að segja rangt, að fella þau nú úr gildi.