10.01.1917
Neðri deild: 19. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í B-deild Alþingistíðinda. (323)

44. mál, útflutningsgjald af síld

Framsm. (Matthías Ólafsson):

Það er öllum háttv. þm. kunnugt, að í ráði er að þetta aukaþing baki landssjóði hátt á þriðja hundrað þúsund kr. útgjaldaauka, ef dýrtíðaruppbótartillögur fjárveitinganefndar verða samþyktar, sem lítill efi er á, og sem reyndar virðist óhjákvæmilegt, og auk þess eru gjörðar ráðstafanir til að auka stórkostlega útgjöldin til samgangna, skipakaupa o. fl.

Það virðist því eigi vanþörf á, að einhver ráðstöfun væri gjörð til að fylla upp í þau skörð, sem þann veg eru höggin í landssjóðinn, og til þess á þetta frv. að miða. En þegar leggja á nýja skatta á, þá verður þess að gæta, að þeir verði sem ótilfinnanlegastir þjóðinni, sem auðið er.

Eigi virðist geta komið til mála, að auka neytsluskattana meira en orðið er. Það virðist því eigi annað ráð vænna, eins og nú stendur á, en að leggja skatt á framleiðsluna og þá einkum á þá framleiðslu, er útlendingar hafa hjer á landi jafnframt Íslendingum, eða jafnvel öllu fremur. Þessu er nú einmitt svo farið með síldveiðina, að hún er að miklu leyti í höndum útlendinga.

Þótt frv. þetta sje borið fram hjer í deildinni af sjávarútvegsnefnd deildarinnar og í samráði við sjávarútvegsnefnd Ed., þá má þó búast við athugasemdum við það frá einsökum nefndarmönnum, því bæði var það, að nefndarmenn greindi nokkuð á um frv. og að síðustu dagana gátu eigi allir nefndarmenn beggja deilda mætt á nefndarfundum, sökum veikinda.

Frv. þetta er svo nátengt frv. því um verðlaun fyrir útflutta síld, sem er næst á dagskrá í dag, að þau verða að fylgjast að gegnum deildina, og er lítt mögulegt, að tala um annað þeirra svo eigi sje minst á hitt. Jeg leyfi mjer því að beiðast leyfis hæstv. forseta til að mega tala um samband þessarra tveggja frv. í einu, þótt það, ef til vill, eigi sje sem þinglegast.

Það er auðsætt, að síldarútvegur vor Íslendinga má eigi við því á þessum erfiðu tímum, að greiða svo hátt útflutningsgjald, sem frv. þetta fer fram á, nema honum sje bætt það upp að nokkru leyti úr landsjóði, og af þeirri ástæðu er frv. um verðlaun fyrir útflutta síld komið fram. Frv. það, sem hjer liggur fyrir til umræðu, má því eigi ganga fram, nema þetta verðlaunafrv. gangi einnig fram, því þótt bæði frv. yrði að lögum, þá yrði þó síldarútvegurinn harðar úti en hann hefir orðið hingað til. Eftir núgildandi lögum fellur 1/10 hluti útflutningsgjaldsins af síld til Fiskiveiðasjóðs Íslands, og því fje hefir verið varið til verðlauna handa innlendum síldarútflytjendum, en samkvæmt frv. þessu er ekki ætlast til, að neitt af því falli til þeirra sjerstaklega, og yrði þeir því þeim mun harðar úti, ef þetta frv. verður að lögum, enda þótt verðlaunafrumvarpið næði fram að ganga.

Jeg vil nú í fám orðum benda á, hver tekjuauki landssjóði yrði af frv. þessu, ef það yrði að lögum, og byggi jeg þar á skýrslum hagstofunnar fyrir árið 1915, sem er síðasta ár, sem vjer enn höfum skýrslur yfir.

Það ár voru fluttar út 383.104 tunnur af saltaðri síld. Það ár voru verðlaun veitt fyrir 50.898 tn. saltaðrar síldar. Eftir núgildandi lögum ætti hagur landsjóðs af útflutningsgjaldinu, að hafa verið sem allra næst þessi:

Útflutningsgjald af 383.104 tn. á kr. 0,50 ………………….……….. kr. 191.552,00

Verðhækkunartollur af 383.104 tn. á kr. 0,75 …………….………... — 287.328,00

Innheimtulaun 2% ………………………. kr. 9.577,60

Til Fiskiv.sjóðs 10% af 191.552 ………… — 19.155,20

Til landssjóðs ……………………………. — 450.147,20

Kr. 478.880,00 kr. 478.880,00

En ef þessi tvö frv. yrði að lögum, mundi hagur landssjóðs verða svo:

383.104 tn. á kr. 3.00 ………………………………………………… kr. 1.149.312,00

Innheimta l% ……………………………. kr. 11.493,12

Fiskiv.sj 5% af 1.137.818,88 — 56.890,94

Verðlaun af 50.898 tn. á kr.1,75 ………… — 89.071,50

Til landsjóðs ……………………………. — 991.856,44

Kr. 1.149.312,00 kr. 1.149.312,00

Hagur landssjóðs yrði þá mismunurinn á 991.856 kr. 44 aurum og 450.147 kr. 20 aurum eða 541.709 kr. 24 aurar, og auk þess hlyti Fiskiveiðasjóður 56.890 kr. 94 aurar og yrði því hagurinn til samans 598.600 kr. 18 aurar.

Af skýrslum þeim, sem nú hafa nefndar verið, er svo að sjá, sem innlendir menn hafi eigi flutt út meira en 50.898 tunnur af síld.

Jeg býst nú við, að hlutfallið í ár hafi verið nokkuð annað, og að Íslendingar hafi flutt hlutfallslega meira út en þessar skýrslur benda til, og yrði þá verðlaunin þeim mun hærri og hagur landsjóðs þeim mun minni. En það er víst, að enn þá er svo miklu meira, sem útlendingar flytja út af síld, að hagur landssjóðs hlyti mikið að aukast, ef frv. næði fram að ganga.

Jeg ætla eigi að fjölyrða meira um þetta mál að sinni. Ef einhverjum hv. þm. hefir dottið eitthvert betra ráð í hug, til að auka tekjur landsjóðs, þá er gott til þess að vita, en því býst jeg eigi við, að neinn haldi fram, að tekjuaukans sje eigi þörf. Jeg fæ eigi betur sjeð en að þingið hafi gjört svo margar ráðstafanir til útgjaldaaukningar, að því sje beint skylt, að benda á ráð til tekjuauka. Hagur landssjóðs er engan veginn eins glæsilegur og margir virðast halda.