27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (335)

11. mál, vátrygging sveitabæja og annarra húsa í sveitum

Flutnm. (Sveinn Ólafsson):

Jeg hefi leyft mjer að koma fram með þetta frv. í þeirri von, að háttv. deild líti svo á með mjer, að nauðsyn beri til að breyta þessum lögum. Þau eru nú orðin 11 ára gömul og komin sú reynd á þau, að þau mega álítast gagnslaus, nema þeim sje breytt í þá átt, sem hjer er farið fram á.

Eins og menn sjá er gjörð grein fyrir ástæðunum fyrir frv. á þingskj. 41, og skal jeg leyfa mjer að árjetta það lítið eitt.

Mjer er kunnugt um það, að oft hefir verið reynt til að koma á stofn brunabótafjelögum í sveitum, en að það hefir gengið mjög illa, og tel jeg hiklaust einkum þá orsök til þess, að það er svo lítill hluti verðsins, sem fæst tryggður, að mönnum þykir ekki taka því. Enda er það augljóst misrjetti, að menn í kauptúnum skuli mega tryggja 5/6 af húsaverði, en sveitamenn ekki nema 2/3. Það er þetta misrjetti, sem fælir sveitamenn frá að tryggja húseignir sínar, og eins og bent er á í ástæðunum fyrir frv., þá hefir þetta misrjetti mikil og ill áhrif á lánstraust húseiganda í sveitum, og þó einkum í sjávarsveitum. Jeg skal benda á það dæmi, að í einum hreppi, sem jeg þekki, var tilraun gjörð til að stofna tryggingarsjóð. Eftir lauslegu mati voru íbúðir allar 100.000 kr. virði. En af því að eigi var kostur á að tryggja nema röskar 66.000 kr., varð að hverfa frá hreppstryggingunni og leita á náðir útlends brunabótafjelags, sem tekur 10-12% iðgjöld, og með því móti verður nefnt sveitarfjelag að greiða óhæfilega háan aukaskatt, sem sje 6—700 krónum hærri brunabótagjöld en ella hefði þurft. Jeg get ekki annað en vænst þess, að háttv. þm. muni verða mjer sammála um, að nauðsyn beri til að laga þessar misfellur, sem hjer eru á.

Jeg skal svo ekki orðlengja þetta frekar, en stinga upp á að málinu verði vísað til landbúnaðarnefndarinnar.