27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

13. mál, einkasala á steinolíu

Pjetur Jónsson:

Efni þessa frv. er mjer ekki í neina staði mótfallið. Álít jeg það merkilegt og þess vert, að það sje athugað með alúð og gaumgæfni. Þess vegna tel jeg það ekki geta komið til mála, að samþykkja það að svo búnu, án rækilegrar íhugunar.

En það þykir mjer óvíst, að þetta þing sitji svo lengi, að tími vinnist til að athuga það svo vel sem skyldi.

Sömuleiðis áleit jeg, að þing þetta hefði verið kvatt saman af óhjákvæmilegum ástæðum, en ekki til að ræða mál þau, sem dregist geta til næsta þings. Veit jeg líka, að margir hafa tekið sjer í mein tíma þann, sem í þing þetta fer. Getur það orðið mörgum bagalegt og jafnvel stórtjón, að vera að heiman svo óvænt, og það lengur en hugsað var.

Vil jeg því láta hika við, að taka þetta mál til meðferðar, því svo er um það, sem önnur fleiri mál, er hjer hafa komið fram, að fresta mætti því til aðalþings, enda gæti það þá fengið betri meðferð.

En sje því vísað til nefndar, álít jeg, að þá sje um leið ákveðið, að taka það til rækilegrar meðferðar á þessu þingi.