27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

13. mál, einkasala á steinolíu

Matthías Ólafsson:

Jeg er hlyntur efni þessa frv., og get ekki að því fundið, en álít undirbúning þess of lítinn, og vanhugsað, að hægt verði að koma því í framkvæmd þegar á næsta ári. Slíkt nær engri átt. Sjerstaklega er það líka vanráðið, að hrapa að slíkum málum á þessum tímum.

Ef framkvæmdirnar eiga að gagni að koma, þarf að útvega járngeyma og járnkassa til að flytja olíuna í, þar að auki skip til flutnings, og mundi það, eins og sakir standa, reynast örðugt.

Vil jeg því leggja það til, að landsstjórninni verði falið þetta mál til undirbúnings, og gæti hún þá leitað sjer allra fáanlegra upplýsinga.

Háttv. flutnm. (J. B.) sagði, að lengja mætti frestinn til framkvæmdanna, ef hann reyndist ónógur, en sá er ljóður á því ráði, að þá mundu kaupmenn geta hætt að panta olíu og hún engin verða til í landinu. En hana þurfum vjer að hafa, hvað svo sem hún kostar, og yrðum vjer því ver settir, ef slíkt kæmi fyrir, heldur en að verða að hlíta kjörum fjelags þess, er verslunina rekur. Annars sje það fjarri mjer, að bera blak af því fjelagi. En jeg veit um tilboð, sem gjörð hafa verið um olíusölu frá Ameríku, og mundi það verða að mun ódýrara, ef hægt væri að fá skip, og mundi fjelagið þá ekki geta hækkað sína olíu í verði.

Annars er þetta mikilsvert framtíðarspursmál, og ekki eingöngu fram komið í því augnamiði, að landið græði, heldur líka af því, að sjálfir eigum vjer að hafa vora eigin verslun í höndum. En víst er það, að landið mundi ekki græða eins mikið á steinolíuverslun hjer, eins og fjelagið hefir gjört. Það er sannfæring mín, að eitt ár er alt of lítill undirbúningstími. Þá er og þessu þingi ekki mögulegt, að fá nægar upplýsingar. Leita þyrfti fyrir sjer í Ameríku um það, hvað ílát mundu kosta; sömuleiðis hvort hægt væri að fá skip o. s. frv.

Annars er jeg málinu hlyntur, eins og jeg hefi áður tekið fram, en vil ekki láta rasa fyrir ráð fram, sjerstaklega þar sem það gæti orðið til óbætanlegs tjóns fyrir atvinnugrein þá, sem jeg ber fyrir brjósti.