27.12.1916
Neðri deild: 6. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (352)

13. mál, einkasala á steinolíu

Bjarni Jónsson:

Jeg vonaði, að umræður yrðu miklar um þetta mál, en fyrst sumir vilja kæfa það í fæðingunni, vil jeg reyna að leggja því nokkur líknarorð og liðsinni.

Skil jeg ekki hvers vegna menn vilja vísa því til stjórnarinnar, en ekki í nefnd. Því að þótt stjórnin sje vitur, álít jeg að fjárhagsnefndin sje líka vitur, og væri þá enn betra að hvorttveggja fengi að fjalla um málið. Væri það líka gott fyrir stjórnina, að fá álit nefndarinnar. Og þar sem stjórnin er enn þá í laugartroginu og hefir ekki látið uppi álit sitt í þessu máli, álít jeg hart að hella slíku yfir hana. Tel jeg það líka ósanngjarnt að vísa málum til hennar áður en hún er sest á laggirnar.

Komið hafa fram raddir um það, að taka ekki til meðferðar á þessu þingi nema mál þau, er brýn nauðsyn er á og ekki verður frestað.

En fyrst menn eru nú hingað komnir með ærnum kostnaði, þá álít jeg rjett, að vinna hjer að fleiru, úr því jóðsóttin er nú afstaðin. Annars tel jeg þetta eins mikið hallærismál og jafnáríðandi sem matarkaup og þess háttar. En því síðar sem byrjað er, því síðar verður málinu lokið, og tel jeg því heppilegast, að vinna að því nú þegar með fullu fylgi.

Hvað undirbúningnum viðvíkur, sje jeg ekki, að hann þurfi svo langvinnan, sem háttv. þm. (M. Ó.) sagði. Auðvitað þyrfti að gjöra hjer olíubrunn, en það ætti að geta tekist á einu sumri. öðrum undirbúningi hjer heima ætti að vera lokið fyrir næsta haust. Brunnskip og olíu mundi mega útvega með 1—2 símskeytum. Þetta gæti þó því að eins orðið, að nú þegar væri tekið að búa málið í hendur stjórnarinnar.

Mjer virðist sjálfsagt, að bregðast vel við því áhugaefni margra manna, að þetta mál fái röksamlega meðferð.

Kjósendur þeir, sem vilja fá rjettlæti í þessu máli, skifta þúsundum. Hvað viðvíkur grundvallarskoðuninni um landsverslun, þá er jeg ekki að fullu sannfærður um, að rjett sje að landið taki að sjer alla verdun. Vil jeg þó ekkert af taka. En um hitt geta allir verið sammála, hvort sem þeir eru jafnaðarmenn eða ekki, eins og háttv. þm. N.-Þ. (B. Sv) drap á, að þegar einhver vara er einokuð af fjelagi eða einstökum mönnum, þá sje sjálfsagt, að landið taki til sinna ráða, og hrífi verslunina úr þeim okurklóm og kúgunar. Hjer eru eigi önnur ráð, fyrst allir eru sammála um, að hjer sje einokun, og kaupmannastjett landsins er ekki sjálfstæðari en svo, að hún skrifar með blóði sínu undir skuldbindingu um, að kaupa hvergi olíu nema hjá þessum kúgara og einokara. Fyrir því tel jeg það heppilegustu leiðina , að landið taki að sjer steinolíuverslunina þegar í stað.