02.01.1917
Neðri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (359)

22. mál, fasteignamat

Flutnm. (Þorleifur Jónsson):

Vjer flutningsmenn þessa frv. höfum borið það fram út af einstökum atriðum í fasteignamatslögunum, sem erfið reynast í framkvæmdinni. Einkanlega þykir það erfitt, að meta sjer eyðijarðir, sem nú eru að fullu sameinaðar við aðrar jarðir. Enn fremur hafa og sum atriði önnur orkað tvímælis, t. d. um það, hvernig ábúðarskatt á að greiða af húsum o. s. frv., og er tilgangurinn með þessu frv. að greiða úr þeim.

Af því að nú er 1. umr., þá skal jeg ekki fara nánara út í einstakar greinar þess. Að eins vil jeg geta þess, að síðan frv. kom fram, hefi jeg heyrt raddir um, að fleira væri athugavert við lögin en frv. hefir tekið með; t. d. vilja sumir láta lengja frestinn, þykir vafasamt, að matsnefndirnar hafi lokið störfum sínum 1918, og vilja því færa takmarkið til 1919. Af þessum ástæðum, vil jeg leggja það til, að frv. sje vísað til nefndar, og eftir atvikum til landbúnaðarnefndar.