09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

22. mál, fasteignamat

Einar Árnason:

Það voru að eins nokkur orð viðvíkjandi kvöðum þessum, sem nefnast prestmata.

Virðist mjer ekki laust við, að misskilningur hafi komið fram um þær. Þegar tilrætt varð um þetta atriði í nefndinni, í sambandi við útreikning ábúðarskattsins, þá hjelt jeg því fram, að rjett væri, að það sæist greinilega í matsgjörðunum, hversu mikið hver sú jörð, er prestsmata hvílir á, er metinn minna vegna mötunnar, svo hægt væri að leggja þá upphæð við jarðarverðið, áður en ábúðarskatturinn er reiknaður út.

Jeg þekki þess mörg dæmi, að svo há prestsmata hvílir á jörð, að þegar matsnefnd er búin að draga kvöðina frá verði jarðarinnar, þá er hún orðin lítils eða einkis virði. Af þessu leiðir svo það, að landssjóður tapar að mestu eða öllu leyti ábúðarskattinum af þessum jörðum, en leiguliðarnir, sem búa á þessum jörðum græða hann. En slíkt er í hæsta máta órjett og ósanngjarnt, því það eru eigendur þessara jarða, en ekki leiguliðarnir, sem þessi órjettláta kvöð hvílir á. Annars tel jeg rjett, að þessari prestmötukvöð væri á einhvern hátt ljett af jörðunum með sjerstökum lögum.