09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

22. mál, fasteignamat

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætlaði ekki að tala um þetta mál, en það, sem kemur mjer til þess, er það, að mjer þykir í meira lagi einkennilegt, að bændur á þingi skuli sjá ofsjónum yfir þessari 1 krónu, sem aukið er við kaup matsmanna, og heyra menn halda ræður um þetta í þingsalnum jafnhliða því, sem alt er verið að bæta upp. Að eins þessir menn mega ekki einu sinni fá svipað því sómasamlega borgun fyrir starfið.

Það má og verður að ganga út frá því, að þessir menn verði að fá mann í sinn stað meðan þeir eru að verkinu. Fyrir minna en 4 krónur á dag vita allir að er ómögulegt að fá slíkan mann, þótt ekki sje talað um dýrasta tímann, heyskapartímann, sem þeir þó oft alls ekki geta notað heima hjá sjer. Þeir hafa því haft 1 kr. — segi og skrifa eina krónu — til þess að lifa af, fá fyrir fæði og farkost. Ef allir landssjóðs starfsmenn hefði slíkt kaup, mundi heyrast umkvörtun, sem ekki væri heldur ástæðulaust. Þó það sje vitanlegt, að ýms mikilsverð trúnaðarstörf sje illa borguð og óhæfilega, sjerstaklega út um sveitir landsins, þá á það engin áhrif að hafa á þetta, og úr því að breytt er til, þá ætti að gjöra það svo, að sómasamleg borgun yrði, en það tel jeg þessa borgun ekki enn, ef gengið er út frá því, að mennirnir þurfi alt að kaupa. Og að landssjóður lifi hjer á íslenskri gestrisni, tel jeg óviðeigandi.

Brtt. mun jeg þó enga gjöra við frv. að þessu sinni, enda mundi það litla þýðingu hafa, eftir því sem hljóðið er í háttv. þm. En jeg tel mjög líklegt, að menn gjöri sig ekki ánægða með þessa borgun, og að næsta þing verði að bæta þar eitthvað úr.