02.01.1917
Neðri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í B-deild Alþingistíðinda. (375)

23. mál, verðbætur landssjóðs á vörum

Flutnm. (Bjarni Jónsson):

Nú eru þeir tímar, að vel á við það, sem skáldið kvað:

Jeg elska þig stormur, sem geisar um grund,

og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,

og gráfeysknu kvistina bugar og brýtur,

en bjarkirnar treystir um leið og þú þýtur.

Þetta erindi á við heiminn nú. Styrjöldin er sem ofsaveður, er feykir burt mollunni. Þjóðirnar standa sem víkingar hver gagnvart annari, en innanlands blómgast dygðir, sem í dái voru meðan friðurinn stóð. Eigingirnin lýtur í lægra haldi. Borgararnir vinna saman sem bræður, en ekki eftir þeirri tísku, sem áður lá í landi. Í þessu er fólgið hið hreinsanda afl stríðsins. Þetta nær ekki hingað; hjer er enginn blóðugur valur. En afleiðingar þessa stríðs hafa þó teygt hrammana hingað. Því hugsa jeg, að hjer fari sem annarsstaðar, að eigingirnin hverfi eða rjeni, og að menn setji hjer nú þau ákvæði um fjárveitingar og stjórnarfar, sem ekki tíðkast á friðartímum.

Þess vegna hefi jeg flutt þetta frv., og má heimfæra það undir þenna inngang, að sumar afleiðingar stríðsins eru þyngri en aðrar, einkum fátæklingunum. Er oss nú skylt að leggja niður allan stjettaríg og freista, hvort ekki má takast að ljetta stríðsbyrðina á fátæklingum þessa lands með þeim sameiginlega sjóði landsins, sem nefnist landssjóður.

Frv. má skifta í tvo kafla. Í fyrsta lagi ákvæði um að hjálpa fátæklingum til sveita. Í öðru lagi ákvæði um hjálp til handa þeim, sem ekki eru framleiðendur, eða smáir framleiðendur.

Hið fyrra atriði hefi jeg hugsað mjer, að fram fari þann veg, að stjórninni sje heimilað að selja landssjóðsvörur undir verði til sveitarfjelaga og bæjarfjelaga, er þau einkum noti til hjálpar fátæklingum sínum, en láti hina efnuðu hjálpa sjer sjálfa. Sumir kunna að segja, að oft sitji hjeraðsríkir menn í sveitastjórnum, er fyrst hugsi um sjálfa sig, og fyrir því muni þessi linkind ekki koma niður á rjettan stað. En jeg hygg, að á slíkum hættutímum sem þessum megi búast við svo miklu bræðraþeli og sannsýni, að jafnvel þeir, sem ágengir voru áður, leggi nú niður þann löst. Jeg held, að óhætt sje að trúa drengskap þessara manna. Jeg er viss um, að ef hjer væri lestir eða vagnar fullir af særðum mönnum, þá mundi verða að þeim hlynt. Jeg treysti því, að á þessum tímum leggi menn af allan krit og stjettaríg. Mun oss Íslendingum ekki verr fara en öðrum þjóðum, en þar þekkir enginn sjálfan sig, heldur að eins þjóð sína og land.

Hinn þátturinn lýtur að innlendri vöru, og er þar alt hægara með að fara. Vel mundi mega koma því svo fyrir, að kaupendur fengi seðla, og fengi þá kaupmönnum, er kaupin færi fram, en þeir sýndu seðlana, þegar þeim væri greiddur landsjóðshlutinn fyrir vöruna. Um þetta mundi stjórnin sjálfsagt setja reglugjörð. En þótt þetta atriði heyri fremur til 2. en 1. umr., þá læt jeg þess þó getið, til þess að sýna, að hjer er um mál að ræða, sem hægt er að framkvæma og framkvæmt er daglega fyrir augum vorum erlendis. Þessa aðferð tel jeg rjettari en þá, sem sem ýmsum datt í hug á síðasta þingi, þótt ekki yrði úr, sem sje að gjöra upptækar vörur eða leggja lag á þær. Því var jeg andvígur, af því að meðan útflutningur er ekki beint bannaður, þá er það landinu beint tjón að setja niður verð vörunnar. Hitt er eðlilegt, að landssjóður, sem er sá eini sterki vor á meðal, hlaupi undir baggann. Á þessa leið, sem jeg hefi nú farið í frv. þessu, benti jeg á síðasta þingi, þótt enginn yrði til þess, að taka upp þá stefnu þá fyrir sakir skammsýni og heimsku. Nú má vera, að jeg þyki vitrari en áður, er nú hafa vorir góðu frændur, Danir, eftir því sem jeg las í blöðum í sumar, horfið að þessu ráði; þeir greiða nú framleiðöndum 30 aura fyrir kjötpundið.

Mjer er það ljóst, að jeg hefi ef til vill ekki tekið alt með, sem þörf er á, svo að nauðsyn kunni að bera til þess, að skipa nefnd í málið. En um hitt efast jeg ekki, að um grundvöllinn verði allir vitrir menn sammála. Jeg hefi ekki hugsað mjer neina sjerstaka nefnd, og læt jeg aðra ráða því. En jeg vona, að menn sinni þessu máli vel, og því gæti jeg trúað, að þeim, sem sent hafa oss hingað, þætti mikið undir, að vjer gæfum vandlega og viturlegá gaum að þessu máli.