02.01.1917
Neðri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í B-deild Alþingistíðinda. (379)

24. mál, stofnun Brunabótafélags Íslands

Flutnm. (Pjetur Ottesen):

Eins og tekið er fram í ástæðunum fyrir frv., hefir brytt töluvert á óánægju yfir ýmsum ákvæðum í lögunum um stofnun brunabótafjelags Íslands frá síðasta þingi. Af þeim ástæðum er frv. þetta framkomið.

Það er aðallega skyldutryggingarákvæðið, sem mestri óánægju hefir valdið. Óánægjan er ekki sprottin af því, að menn sje skyldir að vátryggja húseignir sínar í hinu íslenska brunabótafjelagi, — um nauðsyn slíkrar stofnunar hjer eru víst allir sammála, — heldur þykir mönnurn það ærið hart að gengið, að þeir skuli ekki vera sjálfráðir um það, að hve miklu leyti þeir tryggja þær.

Tilfinnanlegust verður þó þessi skyldutrygging tekjurýrum fátæklingum. Nú er svo ákveðið í reglugjörð þeirri, sem fjelagið lætur fara eftir við virðingarnar, að virða skuli húsin eins og kosta mundi að koma þeim upp nú, en eins og kunnugt er, er byggingarefni alt að minsta kosti 2/3 dýrara en verið hefir. Virðingin verður því geysihá. Afleiðingin verður því sú fyrir þessum mönnum, mörgum hverjum, að þeim veitist mjög svo örðugt, ofan á alt annað, að standa straum af svo háu iðgjaldi, og gjörir þeim því mun örðugra en áður var, að vera sjálfstæðir að þessu leyti, að eiga þak yfir höfuðið á sjer. Að löggjöfin gangi svo langt, að þessi verði afleiðingin, getur víst engum blandast hugur um, að ekki sje holt, og því síður vinsælt.

Það er svo sem vitanlegt, að það er gott, að menn eigi vel trygðar eignir sínar, og er það auðvitað ekki síður nauðsynlegt þeim, sem efnalitlir eru; en menn verða að sníða sjer stakk eftir vexti um útgjöldin.

Jeg veit, að það er vilji fjöldans, að skyldutryggingin hefði ekki náð lengra en það, að menn hefðu verið skyldir að tryggja í hinu íslenska brunabótafjelagi, þeir sem vildu og þurftu að tryggja, og þá haft líka aðstöðu til fjelagsins að þessu leyti, sem þeir höfðu til útlendra fjelaga.

Æskilegast hefði það óneitanlega verið, að geta komið fjelaginu á stofn á þenna hátt, því mjög orkar það tvímælis, hversu heppilegt það sje, að takmarka meir en góðu hófi gegnir athafnafrelsi einstaklingsins og yfirráð hans yfir fjármunum sínum. Og mjög miklar líkur eru til þess, að hægt hefði verið að koma fjelaginu á stofn einmitt á þenna hátt, og sjerstaklega ef starfsvið fjelagsins hefði þá verið haft nokkuð rýmra.

Nú er þegar verið að undirbúa starfrækslu laganna, og höfum við flutningsmenn þessa frv. ekki viljað ganga lengra en þetta í breytingaáttina, því að viljum engan veginn á það stráið stíga, er þeirri góðu hugmynd — að koma brunatryggingunum í innlendar hendur, — mætti að meini verða, því að það eru líka hæg heimatökin um það að rýmka betur til síðar meir, ef vel gengur. En þessi litla breyting, að menn sje ekki skyldir að tryggja nema helming, en hafi svo auðvitað frjálsar hendur til að tryggja upp í hámarkið, 5/6, getur í engan máta orðið þröskuldur í vegi fyrir stofnun og viðgangi fjelagsins, en er nauðsynleg að því leyti, að gjöra þeim, sem eru minni háttar í mannfjelaginu, mögulegt að nota fjelagið við sitt hæfi.

Eins verður þessi breyting — jeg vil benda á það — vafalaust til þess, að auka fjelaginu vinsældir í landinu, og er það ekki hvað minst um vert, til þess að það geti orðið landi og þjóð til farsældar í framtíðinni.

Við væntum þess, að hin háttv. deild taki máli þessu vel, því að langan tíma ætti það ekki að þurfa að taka. Jeg vil svo gjöra það að tillögu minni, að málinu verði vísað til allsherjarnefndar, að lokinni þessari umr.