02.01.1917
Neðri deild: 12. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í B-deild Alþingistíðinda. (381)

24. mál, stofnun Brunabótafélags Íslands

Flutnm. (Pjetur Ottesen):

Hjá okkur háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) er auðsær fullkominn meiningamunur í þessu máli. Við erum sammála um það, að nauðsyn beri til, að ná brunatryggingunum í íslenskar hendur, og banna mönnum að skifta við erlend fjelög á því sviði.

En jeg vil ekki láta svifta vátryggjendur að öllu leyti rjetti sínum um það, að hve miklu leyti þeir tryggja, en þar stendur hann á öndverðum meið.

Hann getur ekki fallist á, að iðgjöld þau, sem koma á herðar fátæklingum undir núverandi kringumstæðum, gjöri þeim neitt örðugt fyrir.

Þetta sjest best, sje það rjett athugað. Hús, sem var 2.000 kr. virði fyrir verðhækkunina, mundi nú vera virt á 6.000 kr. Sje nú hús þetta í 3. flokki, þá er iðgjaldið 81/4 af þúsundi eða = kr. 49,50.

Það getur því engum dulist, sem nokkuð þekkir kjör fátæklinga, að það er ærið þungur skattur á þá, að borga svo hátt iðgjald af þessari óeðlilegu verðhækkun.

Mjer finst líka, að þessi ummæli háttv. þm. V.-Ísf. (M. Ó.) komi úr hörðustu átt, því að á þingi í fyrra fjellu svo orð hans, að sjálfsagt væri að breyta lögunum, ef þau reyndust gölluð. Og jeg sje ekki betur en að sú ástæða sje nú fyrir hendi, og er tíminn sjerstaklega heppilegur, þar eð fjelagsstofnunin er enn ekki komin á fastan fót.