04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (388)

26. mál, landauralaun

Ráðherra (Einar Arnórsson):

Jeg hefi ekki hugsað mjer að lengja umræður mikið. Jeg vil taka það fram, að þótt jeg sitji enn í þessu sæti, tala jeg nú ekki sem ráðherra, því að jeg býst ekki við, að mál þetta komi til minna kasta.

Jeg hafði búist við, að þetta þing myndi gjöra einhver lög eða ályktanir um, að stjórnin skyldi veita starfsmönnum landsjóðs dýrtíðaruppbót fyrir hið nýliðna ár og það, sem nú stendur yfir, en bjóst ekki við, að það myndi taka til annara bragða. Jeg veit og, að launamálanefndin hefir setið á rökstólum og gjört tillögur. Og þótt menn geti ef til vill ekki fallist á þær, má gjöra ráð fyrir, að þær sje bygðar á mikilli rannsókn og athugun á málinu.

Svo er annað atriði, sem mjer finst mæla með því, að þingið gjöri engar framtíðarákvarðanir að sinni. Þessir yfirstandandi tímar eru alveg óvenjulegir. Verðhækkun á öllum vörum afskaplega mikil. Hún rjettlætir það, að veitt sje dýrtíðaruppbót. Aftur veit enginn, hve lengi stríðið stendur, og þótt striðið endaði bráðlega, veit enginn hve nær verðlag kemst aftur í samt lag. Maður veit heldur ekki hvort verðlag kemst nokkurntíma í það ástand, sem það var í þegar ófriðurinn hófst. Finst mjer því ekki rjett, að taka nú fyrir launamálið, að svo lítt rannsökuðu máli. (Bjarni Jónsson: Það er einungis mælikvarðinn, sem hjer er um að ræða). Jeg skal koma að því aftur. Jeg skal taka það fram, að hugmyndiná tel jeg mjög rjetta og sanngjarna. En annað mál er það, hvort svo einstaklega auðvelt sje að framkvæma þessa góðu hugsjón. Þótt gjöra megi ráð fyrir, að hin nýja stjórn sje öll af viti og vilja gjörð, þá er valt að treysta því, að hún undirbúi málið fyrir 1. júlí. (Bjarni Jónsson: Hagstofan getur það). Hagstofan getur engan fullnaðarundirbúning gjört. Hún getur einungis gjört útreikninga, en svo verður stjórnin að útbúa tillögur. Jeg get því eigi heldur aðhylst dagskrá hins hv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þar sem hún ætlast til, að launamálið verði lagt fyrir næsta þing, því að jeg tel það eigi gjörlegt. Vil jeg því leyfa mjer að bera fram fram aðra rökstudda dagskrá, sem jeg nú skal lesa upp með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar svo:

Í því trausti, að landstjórnin taki til rœkilegrar íhugunar við vœntanlegan undirbúning launamálsins fyrir Alþingi, hvort eigi sje fœrt og sjálfsagt, að miða launagreiðslur landsjóðs við landauraverðlag, tekur deildin fyrir nœsta mál á dagskrá.

Munurinn á þessum tveim dagskrám er sá, að hjer er ekki bundið við ákveðinn tíma, og tel jeg það að öllu leyti æskilegra, af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi tekið fram.