04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

26. mál, landauralaun

Gísli Sveinsson:

Jeg heyrði því miður ekki ræðu háttv. þm. Dala. (B. J.), af því að jeg var á símtali meðan hann talaði, og veit því ekki, hver svör hann veitti við ræðu minni. (Bjarni Jónsson: Jeg sagði, að hún væri misskilningur). Hafi háttv. þm. sagt það, þá þarf jeg ekki að svara honum, því að slík andsvör eru engin rök.

Mjer skilst svo, sem allir sje á sama máli um það, að málið sje ekki tímabært, skorti nægilegan undirbúning, og er því undarlegt, að háttv. flutnm. (B. J.) skuli vilja halda frv. til streitu. Munurinn á dagskrártillögu minni og hæstv. ráðherra (E. A.) er að eins sá, að jeg vil að málið sje undirbúið til fulls fyrir næsta þing. Mjer finst það einhvern veginn liggja í loftinu, að forsætisráðherrann nýi eða tilvonandi (J. M.), sem var einn af aðalmönnum launanefndarinnar, telji sjer skylt að leggja fyrir næsta þing tillögur um launamálið. Samt sem áður vil jeg ekki gjöra mína dagskrártillögu að kappsmál:, þótt jeg hins vegar telji nauðsynlegt, að hrinda málinu sem fyrst í framkvæmd, bæði vegna þess, sem launin á að greiða, landssjóðsins, og vegna þeirra, sem þau eiga að taka. Tek jeg því hjer með aftur þessa tillögu mína, en get aðhylst till. hæstv. ráðherra (E. A).

Þar á móti sje jeg ekki, að nokkur nauður reki til að rasa að þessu nú, þar sem síðasta þing viðurkendi með lögum nauðsyn uppbótar, og jeg þykist vita, að þetta þing muni einnig fallast á einhverja sæmilega uppbót. Það er því ekki nauðsynlegt, að aðhyllast þetta frv. dýrtíðarinnar vegna, sem þó annars vari ein helsta ástæðan fyrir frv.