09.01.1917
Neðri deild: 18. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

39. mál, lýsismat

Flutnm. (Sveinn Ólafsson):

Væntanlega þarf ekki langa framsögu í þessu máli. Þetta frv. gjörir engum mein, en getur haft nokkura þýðingu, eins og nú stendur á. Frv. er komið fram fyrir beiðni lýsissala. Í ástæðum fyrir frv. er gjörð grein fyrir, hvers vegna það er komið fram. Það hefir reynst ókleift, að selja útlendum heildkaupmönnum lýsi á skipsfjöl, og hefir það spilt mjög fyrir lýsissölunni, og það hefir verið undir samningum komið í hvert skifti, hvaða verð lýsissalar hafa fengið fyrir vöruna.

Vjer höfum ekki viljað lögskipa mat á lýsi, eins og t. d. hefir verið gjört um fisk og ull. Það hefir sem sje sýnt sig um ullarmatið, sjerstaklega síðastliðið ár, að það gæti haft í för með sjer skaða fyrir framleiðendurna. Vildum vjer því ekki lögskipa mat þetta, heldur lögleyfa það; gefa mönnum kost á að fá það, ef þeir vildu. Það mætti færa fram móti frv., að það hefir í för með sjer nokkur útgjöld fyrir landssjóð, sem hann getur ekki bætt sjer, nema með útflutningsgjaldi af lýsi. En það má taka fram, að landssjóður hefir sem stendur talsverðar tekjur af lýsi í verðhækkunartollinum. Útgjöldin eru að eins til áhalda þeirra, er þurfa til rannsóknar og merkingar. Áhöld þessi munu ekki dýr. Það þarf að eins litla handdælu. Held jeg því, að þetta frv. hafi ekki í för með sjer nokkur veruleg útgjöld, eða aðra annmarka, er geta tafið fyrir því. Samt tel jeg rjettara að vísa því til sjávarútvegsnefndar. Fleira sje jeg ekki ástæðu til að taka fram um frv. og vona, að því verði vel tekið.