04.01.1917
Neðri deild: 14. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (408)

16. mál, lánastofnun fyrir landbúnaðinn

Flutnm. (Sigurður Sigurðsson):

Landbúnaður og sjávarútvegur hafa verið frá öndverðu aðalatvinnuvegir landsmanna, og eru það enn. En töluvert ólíkt er þessum atvinnuvegum háttað að ýmsu leyti. Talið er, að sjávarútvegur gefi fljótan og mikinn arð þá er vel gengur. Af landbúnaði er þar á móti jafnan seintekinn gróði, en hann er hins vegar tryggur atvinnu vegur, ef hann er stundaður með forsjá og hyggindum, og í skjóli landbúnaðarins hefir þrifist og dafnað alt það besta, sem þjóðin á, og hefir átt í fórum sínum. Landbúnaðurinn er því hvorttveggja í senn, skjólgarður og vermireitur íslensks sjálfstæðis.

Á síðustu árum hefir sjávarútvegurinn tekið risaframförum, sjerstaklega síðan að botnvörpuveiðaútgjörðin hófst. Á sama tíma hafa að vísu orðið nokkrar framfarir í landbúnaði, en ekki í neinum samjöfnuði við það, sem á sjer stað um sjávarútveginn. Nú er svo komið, að sjávarútvegurinn er farinn að keppa við landbúnaðinn, bæði um vinnukraft og fleira, og virðist hafa nú sem stendur yfirhöndina. En slík samkepni er hættuleg landbúnaðinum og getur leitt til þess, að sá atvinnuvegur þíði stórkostlegan hnekki. En illa væri það farið, ef landbúnaðurinn lyti þar lengi í lægra haldi. Af því mundi leiða þjóðartjón og þjóðernisglötun. En við skulum vona, að ekki komi til þess.

Hvað er nú það, sem lyft hefir undir sjávarútveginn og hjálpað honum áfram? Svarið hlýtur að verða: Greiður aðgangur að lánum með góðum kjörum, samfara dugnaði.

Orsökin er sú, að bankarnir virðast einlægt hafa verið hlyntari kaupstöðum og sjávarútvegi en bændum og landbúnaði. Hver sem hefir bygt húskofa í kaupstað, óvandaðan timburhjall, hefir fengið lán til þess umtölulítið, fyrst víxillán, og síðan lán út á húsið. En sveitamönnum, sem hafa þurft að fá lán til að kaupa jörð sína, eða byggja á henni hefir oft, annaðhvort verið synjað um lán eða veitt það með eftirtölum. Það má næstum því segja, að það andi kulda frá bönkunum til landbúnaðarins, að bankarnir hafi dregið fólkið til kaupstaðanna með of greiðum aðgangi að lánum til húsabygginga, og þar með stuðlað að hinum skjóta og eðlilega vexti bæjanna, sem orðið hefir landbúnaðinum til hálfgjörðs niðurdreps. Bankarnir hafa því verið fram að þessu meira fyrir kaupstaðina og sjávarútveginn heldur en fyrir landbúnaðinn. Um það held jeg að allir geti verið sammála, og jeg býst við að sama haldist í framtíðinni. Þetta er í sjálfu sjer ekki óeðlilegt, með því fyrirkomulagi, sem er á bönkunum. Þeir eru víxlabankar að mestu leyti, og vilja ekki festa fje sitt til langs tíma. Þess vegna er það líka svo, að mjer vitanlega hafa bankarnir lítið gjört að því, eða jafnvel ekkert, að lána fje til jarðabóta eða jarðræktar. Mjer hefir að vísu verið sagt, að Landsbankinn hafi gefið kost á láni til stór-jarðræktarfyrirtækis hjer á landi með góðum kjörum, og sje það svo, er það lofsverð undantekning frá aðalreglunni.

Sú stofnun, sem lánað hefir til jarðabóta fram að þessu, er Ræktunarsjóður Íslands. Hann lánar fje til allskonar jarðræktar og jarðabóta með góðum kjörum. Lánin veitast tíðast til 20 ára, og afborgunarlaus fyrstu 4 árin.

Landbúnaðinum gagna ekki lán til skams tíma. Lán til jarðabóta þurfa að vera veitt til langs tíma, helst til 20-30 ára, eftir því hver jarðabótin er.

Þótt nú Ræktunarsjóðurinn hafi hjálpað mörgum til þess, að koma í framkvæmd ýmsum jarðabótafyrirtækjum, þá er nú svo komið, að hann megnar ekki að fullnægja kröfum landsmanna í þessu efni. Sjóðurinn hefir nú starfað í nærfelt 15 ár, og á þessum tíma, eða frá 1902 til 1916, hefir hann lánað 316.426 kr. alls. En á sama tíma hafa verið lánaðar til skipakaupa, stærri og minni, svo miljónum skiftir.

Tillaga mín á þingskjali 17 miðar að því, að reynt verði að bæta úr þessu misrjetti. Hún fer fram á það, að stjórninni verði falið að búa undir og leggja fyrir næsta þing frv. til laga umlánsstofnun, er eingöngu veiti hentug lán til ræktunarfyrirtækja og jarðabóta.

Með hvaða hætti komið yrði upp slíkri lánsstofnun eða jarðabótabanka, skal jeg ekki fara mörgum orðum um. Jeg er ekki heldur bankafróður maður, og get því fátt um þá hlið málsins sagt. Hins vil jeg geta, að sumum hefir dottið í hug, að sem grundvöll fyrir slíkri lánsstofnun mætti nota Ræktunarsjóðinn og kirkjujarðasjóðinn, sem myndast af andvirði seldra kirkjujarða, og sýnist það sanngjarnt, að því fje sje varið til þess að hlynna að landbúnaðinum. En sem sagt, jeg er ekki bankafróður og skal ekki koma með neinar tillögur um, hvernig sje heppilegast að koma þessu í framkvæmd. Jeg legg það í hendur hinnar nýju stjórnar að finna ráð til þess. Jeg skal að eins geta þess, að sumir vilja, að tekið sje lán til að koma upp jarðabótabankanum, og enn aðrir telja heppilegast, að koma á fót lánsfjelögum með svipuðu fyrirkomulagi og tíðkast meðal bænda í Danmörku. En hvað af þessu sje hyggilegast, verður stjórnin að dæma um, eða finna einhverjar nýjar leiðir, og hygg jeg, að henni sje trúandi til þess, þar sem hana skipa þessir þrír menn, lögfræðingur, bankastjóri og bóndi. Að minsta kosti ætti bóndanum að vera kunnugt hvar það er, sem skórinn kreppir mest að.

Hvað viðvíkur brtt. á þgskj. 53 frá háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.), þá skal og taka það fram, að hún er að efni til samhlj. minni aðaltillögu. Að eins er hún betur sniðin að forminu til, og mun jeg því fylgja henni, er til atkvæða kemur. Annars skal jeg ekki orðlengja þetta frekar. Jeg vona að till. verði samþykt, því að öllum hlýtur að vera það ljóst, að þörfin á slíkri stofnun er mjög aðkallandi. Og eigi landbúnaðurinn að taka nokkrum framförum, þá er nauðsynlegt, að hann eigi kost á lánum til jarðræktarfyrirtækja með aðgengilegum kjörum. En aðgengileg eru kjörin að eins ef lánin eru veitt til langs tíma, afborgunarskilmálar góðir, og vextirnir lágir.