08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

33. mál, réttur landssjóðs til fossa o. fl. í afréttum

Bjarni Jónsson:

Jeg er háttv. flutnm. (G. Sv.) þakklátur fyrir till., og samdóma hæstv. forsætisráðherra (J. M.), að frá hans hálfu sje till. orð í tíma töluð.

Það hefir jafnan verið mitt áhugamál, að eitthvað það mikilvægasta, sem framkvæmt yrði hjer í landi, væri það, að sporna við því, að landið lenti í höndum útlendinga. Það er því miður satt, að einstaklingum hjer á landi er ekki trúandi fyrir jarðeignum. Menn hafa hjer þá tröllatrú á peningum, að menn horfa ekki í að selja þær jarðir, sem foreldri og forfeður þeirra hafa búið á, eyða síðan peningunum og enda með því, að verða þrælar útlendra þjóða. Slík eru forlög þeirrar þjóðar, sem glatar jarðeignum sínum, og hugsar mest um peninga og annað skran.

Þegar námulögin voru á ferðinni reyndi bæði jeg og aðrir að herða á ákvæðum þeirra; nokkuð varð oss ágengt, en ekki nægilega.

Jeg vil bæta við till. þeirri áskorun til stjórnarinnar, að endurskoða öll lög, sem að þessu lúta, jafnt þótt varði eignir einstaklinga, og athuga kaup, sem fram hafa farið til leppa, og aðaláskorun mín er sú, að stjórnin vildi setja leppalög, til þess að vernda þjóðfjelagið fyrir ókindum þeim, sem leppar eru kallaðir.