08.01.1917
Neðri deild: 17. fundur, 27. löggjafarþing.
Sjá dálk 324 í B-deild Alþingistíðinda. (418)

33. mál, réttur landssjóðs til fossa o. fl. í afréttum

Flutnm. (Gísli Sveinsson):

Jeg get verið þakklátur hæstv. stjórn og háttv. þm. þeim, sem tekið hafa til máls, fyrir góðar undirtektir í þessu máli, enda átti jeg von á þeim.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) taldi vafasamt, að hægt væri að framkvæma þær riftingar, sem getið er um í síðari lið tillögunnar. Eins og tillagan ber með sjer, er farið fram á, að þeim einum samningum verði riftað, sem koma í bág við rjett landssjóðs. Með því er átt við, að ef sýslufjelög eða einstakir hreppar selji fossa, sem með rjettu verða að teljast eign landssjóðs, þá skuli þeim samningum vera riftað. Jeg get ekki skilið, að háttv. þm. (E. A.) geti sjeð nokkur tormerki á því, að þær riftingar fari fram.

Það er ekki tiltækilegt nú að giska á, hve mikil útgjöld það hefir í för með sjer ef tillagan yrði samþykt, því slík ágiskun yrði alt af mikið af handa hófi.

Hvað væntanlegum skaðabótum viðvíkur, þá er það sjálfgefið, að þeir eiga þær að greiða, er samið hafa ólöglega, þ. e. sýslu- eða sveitarfjelögin, sem kynnu að hafa selt óleyfilega rjett, er þeim bar ekki.

Jeg vona svo, að tillagan fái að ganga fram, án þess hún verði borin undir nefnd nú á þessu þingi.